Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að styrkja kaup Landsbjargar á nýju björgunarskipi til Patreksfjarðar um 20 m.kr., sem greidd verða á næstu fjórum árum.
Erindi barst frá Björgunarbátasjóð Barðastrandarsýslu dags. 19. febrúar 2025 um stuðning frá Hafnasjóði Vesturbyggðar. Í erindinu kemur fram að nú sé komið að endurnýjun á björgunarskipi á svæði 6, Verði II sem þjónustar svæði frá Arnarfirði að Kollafirði á sunnanverðum Vestfjörðum.
Heildarkostnaður við smíði skipsins er 340 milljónir króna og það sem fellur í hlut Björgunarbátasjóðs Vestur Barðastrandarsýslu eru 85 milljónir króna. Áformað er að nýtt björgunarskip verði afhent 2026.
Nýju skipin eru smíðuð í Finnlandi í skipasmíðastöð KewaTec og eru útbúin með nýjustu siglingatæki og búnað til leitar og björgunar. Nýju skipin eru 17,1 metri að heildarlengd og eru með 5 tonna dráttargetu. Þau eru knúin áfram af tveimur öflugum Scania vélum sem geta komið þeim á allt að 32 hnúta, ganghraði núverandi skips er 14 hnútar. Gert er ráð fyrir allt að 6 áhafnarmeðlimum í fjaðrandi sætum. Skipin hafa getu til að bjarga allt að 60 manns í ítrustu neyð en pláss er fyrir 40 inni í skipinu auk þess sem í því er
eldunar- og svefnaðstaða sem er mikil framför frá eldra skipi. Skipið er sjálfréttandi og er farsvið nýs skips um 200 sm og eru skipin hönnuð til notkunar á úthafi. Þá eru öflugar brunadælur um borð sem koma að góðum notum ef slökkva þarf elda á sjó.