F. 24. september 1886 í Villingadal Ingjaldssandi. D. 3. júlí 1956 á Ísafirði.
Öndvegisverk: Göngustafur með handfangi úr fílabeini, Trésvipa með slöngumynstri, Kýrhorn með drekamynstri.
Það má alveg segja að Guðmundur Jónsson er kenndi sig við æskustað sinn, Mosdal, hafi verið allur í verkinu. Allt er hug hans snerti vann hann að svo mikilli ástríðu og áhuga að til eftirbreytni er. Í því samhengi má nefna að sagt var að strax í æsku hafi hann gjarnan verið með bók í annarri hendi en hrífu í hinni, gaf þó ekkert eftir við búverkið. Sköpunina hafði hann vissulega í höndunum og varð einn besti myndskeri síns landsfjórðungs. Sportið átti líka hug hans allan og þar var ástríðan alla leið hvar hann bæði stofnaði og stýrði ungmennafélögum á sínu æviskeiði. Þá er ótalið áhugi hans á varðveislu sögu sem muna enda var hann bæði ötull liðsmaður Sögufélags Ísfirðinga og Byggðasafnsins vestra.
Sólarlistamaður og bæjarins þjónn í Sóltúni
Hin fyrstu jól snáðans Gvendar voru eigi góð því faðir hans fórst í snjóflóði skömmu fyrir ljóssins hátíð. Þá var sá stutti sendur í fóstur til frændfólks í Mosdal sem var ysti bærinn í Mosvallahreppi. Allra heilla líkaði honum þar vel enda kenndi hann sig við æskustaðinn. Þar nam hann líka það sem átti eftir að móta og fylgja honum alla tíð. Áhuga á bókmenntum og þjóðlegum fróðleik. Einsog títt var í þá tíð var pilturinn Gvendur snemma byrjaður að hjálpa til við lífsbrauðið í Mosdal bæði á landi sem á sjó. Puðið var samt þó eigi það mikið að hann gat einnig gefið sér tíma til lesturs og ekki síður við að tálga undursins hluti. Í hans höndum varð saklaus trékstubbur að listaverki í formi hins fyrsta landnema lágfótunnar eða melrakkans einsog sá fótafimi er nefndur stundum. Enda stefndi hugurinn snemma í átt þeirra miklu myndskurðalistar því strax árið 1911 er hann kominn til Reykjavíkur til að nema tréskurðarlistina hjá einum færasta listamanni þeirra listar á þeim tíma Stefáni Eiríkssyni. Þar var hann við nám næstu fimm árin og gaf seinna sínum lærimeistara hagalega gjörðan reykjarpípuhaus með dreka- og ormamyndum. Líkt og fyrir vestan þá var Gvendur liðtækur í félagsmálunum á sínum Reykjavíkurárum þá einkum fyrir ungmennafélagið og svo til góðverka bindindisfélaga sem höfðu þá hið fagra heiti templarar.

Sóltún hús listamannsins á Ísafirði.
Einsog margur Vestfirðingurinn togar fjórðungurinn ávallt í mann svo hann fór fljótlega aftur vestur og nú á Ísafjörð hvar hann miðlaði sinni skurð- og teiknilist. Eitthvað fannst honum þó sig eiga vanlært í listinni því árið 1919 siglir hann í norður og dvelur næstu tvö árin ýmist í Noregi, Svíþjóð eða Danmörku. Hvar hann bætti við þekkingu sína í myndskurðinum með áherslu á fornnorrænan tréskurð. Einnig stúderaði hann bókband. Mætir svo aftur á Ísafjörð hvar hann starfar allt til enda. Æviverk hans var fjölbreytt og vilja margir meina um of. Einkum hafi það kannski verið félagsstörfin sem trufluðu hann fullmikið við listastarfið. Alla tíð var hann iðinn við að kenna æskunni vestra tréskurð, teikningu og bókband. Þá má leikandi segja að hann hafi verið mikill vormaður enda stofnaði hann eigi færri en 3 ungmennafélög í Önundarfirði og síðar einnig á Ísafirði. Starfaði hann mikið í þágu ungmennasportsins og var meira að segja ritstjóri þeirra rits, Skinnfaxa. Svo var það áhuginn er kviknaði á æskuheimilinu í Mosdal hinn þjóðlegi arfur. Var hann velvirkur í Sögufélagi Ísfirðinga og í framvarðasveit Byggðasafns Vestfjarða enda fór það svo að hann arfleiddi safnið af sínu merka húsi Sóltúni sem og hins stóra bókasafns síns. Talandi um húsið er hann reisti og nefndi Sóltún. Er það mikið listaverk og sannlega eitt af þeim húsum sem gestir Ísafjarðar láta eigi óséð enda er það mjög vel séð. Guðmundur var trúmaður var í sóknarnefnd og gengdi meðhjálparastarfi.
Samferðamenn Guðmundar kváðust ávallt koma fróðari af hans fundi. Hann var enda sífellt að bæta þekkingu sína sem hann sótti ekki síst í bækur. Segja má að Gvendur hafi verið einsog Google þess tíma á Ísafirði.
Listsins hlutir
Fjölbreytileiki listaverka Guðmundar frá Mosdal er mikill allt frá smíði á langspili til göngustafs. Marga hlutina smíðaði hann eftir pöntun. Má þar nefna staf er hann smíðaði að beiðni Guðrúnar í Æðey er hún sína gaf doktórnum og tónskáldinu Sigvalda Kaldalóns. Er hinn þarfi stafur mikil listasmíð með handfangi er gjört var úr fílabeini og í það rist hin fegursta harpa sem var sannarlega viðeigandi. Þar fyrir neðan er svo gullhólkur með þakkarkveðju gefandans til þyggjarans. Systkini nokkur fengu Gvend til að gjöra sérstakt skrivstatív í tilefni af silfurbrúðkaupi foreldra þeirra. Á heimili Járngerðar Eyjólfsdóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal var svo að finna haganlega gjörða trésvipu með slöngumynstri er einn kunnasti listamaður Önundarfjarðar gjörði. Marga listmuna Guðmundar Jónssonar frá Mosdal er nú að finna í safninu sem hann átti stóran þátt í að koma á fætur Byggðasafni Vestfjarða. Má þar nefna listilega útskorið kýrhorn með drekamunstri.
Elfar Logi Hannesson

Heimildir:
Alþýðublaðið 26. september 1946.
Eiríkur J. Eiríksson. Guðmundur Jónsson frá Miðdal. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956.
Morgunblaðið 17. júlí 1956.