F. 15. janúar 1907 á Kirkjubóli í Bjarnardal Önundarfirði. D. 30. ágúst 2002.
Öndveigsverk: Eiginkonan í orlofi, Selja, Vornótt.
Það er ekkert svo hugljúft sem hlátur
er hann hljómar frá einlægri sál.
Hann er gæfunnar leikandi geisli,
hann er gleðinnar fegursta mál.
Eigi annað hægt er fjalla skal um skáld að hefja erindið úr ranni þess er fjallað er um. Bóndann, félagsmanninn og sjálft sólarskáldið Guðmund Inga Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal firði Önundar þess er fyrst byggði fjörðinn. Elsta kvæðið í hans fyrstu ljóðabók Sólstafir, 1938, er einmitt um Önundarfjörð en kvæðið orti Ingi aðeins 17 ára að aldri. Alla tíð átti hann eftir að yrkja um sína sveit og ekki síðar sveitunga. Síðar samdi sveitungi hans Brynjólfur Árnason, á Vöðlum, lag við ljóðið Önundarfjörður og vilja margir meina að það sé hinn eini sanni þjóðsöngur Önundarfjarðar enda ekki ónýtt upphaf einsog hér má lesa.
Ó, fjörður, okkar fóstursveit,
við finnum yndi hér
er yljar landið eygló heit
og eins er mjöllin þekur reit
því, fjörður kær, í faðmi þér
er fagurt nær sem er.
Ljóðabóndi
Fæddur og uppalinn á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði (til gamans má geta þess að Kirkjubólin eru fjögur í firðinum). Foreldrar hans voru ekki bara bændur heldur og hagyrðingar ágætir auk þess sem bækur voru hafðar uppi á heimilinu. Segin saga en þó eigi of oft sögð að krakkarnir læri það sem fyrir þeim er haft enda áttu börn þeirra auðvelt með að kveða þó Ingi sé þeirra þekktastur. Tók hann loks við búi foreldra sinna á Kirkjubóli lýðveldisárið, 1944, og sama ár flutti hann hátíðarljóð er Vestfirðingar fögnuðu saman lýðveldinu á Hrafnseyri á afmælisdegi þekktasta sonar þess staðar. Ári síðar sendi hann frá sér aðra ljóða bók er vitanlega hafði sólarheiti eða Sólbráð, 1945. Þar brá aðeins við nýjan tón frá fyrri ljóðasólinni enda hafði mannlegt myrkur staðið yfir síðustu ár, heimsstyrjöldin hin síðari. Víst var skáldið friðarsinni einsog margur listamaðurinn og bara hinn almenni heimsborgari það eru bara þessi fáu skemmdu epli sem skapa ófriðinn. Ingi tók virkan þátt í hinum þörfu störfum hernámsandstæðinga. Líklega er hans þekktasta ljóð einmitt sótt í hersarpinn kvæðið Selja um hina hina vestfirsku stúlku er flytur suður hvar hún þjónar á knæpu hermanna. Ríkan þátt í vinsældum Seljukvæðis er án efa sú að það fékk utanum sig lag er Jón Jónsson frá Hvanná samdi og var þá búsettur vestra. Reyndar fékk tónskáldið ljóðaskáldið til að breyta kvæðinu dulítið og taka hernámstenginguna út svo það mundi ekki lenda á bannlista útvarpsins fyrir einhverja stríðspredikun. Ingi var eigi á sama máli en lét undan þar sem hann vissi að tónmaðurinn væri eitthvað veikur fyrir hjarta og eitthvað svona ljóðauppnám gæti jafnvel fjölgað slögum þessi músíkalska um of.

Líklega er ljóðið og músíkin einmitt ein besta tvenna listasögunnar enda hafa ófá ljóðin einmitt lærst meðal þjóðarinnar einmitt í gegnum tónlistina. Það var ekki bara hjartatónskáldið Jón sem heillaðist af ljóðum ljóðabóndans á Kirkjubóli því fjölda margir hafa búið til músík við kvæðin. Nægir þar að nefna Jónas Tómasson, Sigvalda Kaldalóns, Bjarna Guðmundsson og svo áðurnefndan sveitunga skáldins Brynjólf Árnason. Eigi að ástæðulausu sem músík skáldin heilluðust því yrkisheimur Inga var fjölbreyttur ekki bara bændalífið og Önundarfjörðurinn heldur orti hann um landið, þjóðarsálina og hið daglega amstur. Ljóðin urðu einmitt til við daxins verk og best þótti að láta þau mjattla soldið í kollinum áður en skáldið settist niður og ritaði þau á blaðið. Hann var og listaskrifari enda vinsæll í ritarastarfið í þeim fjölda mörgu félögum sem hann tók virkan þátt í alla tíð. Allt frá umgmennafélagsstarfi til búnaðar- og sveitarstjórnarstarfa. Oddviti var hann í sinni sveit í ein 26 ára auk þess að vera í framboði fyrir Framsókn í þrígang. Þó margt hafi nú verið talið og í raun ótrúlegt hvað maðurinn getur afrekað þá er ótalið að Ingi var lengi kennari í sinni sveit og meira að segja skólastjóri á Holti til fjölda ára. Menntun átti sannlega sinn þátt í hans lífshjóli en til gamans má geta þess að hann stúderaði hið merka mál esperanto og flutti meira að segja um það sérstakt erindi á Alþingishátíðinni á Framnesi í Dýrafirði árið 1930. Nema hvað örfáum árum síðar eru allt í einu staddir á hlaðinu á Kirkjubóli ungir menn frá Tírol. Munaði minnstu að andlitið yrði eftir á bæjarmottunni hjá hinum erlendu gestum þegar Ingi talaði esperantó einsog það væri hans móðurmál.

Árið 1962 gekk Ingi að eiga Þuríði Gísladóttur frá Mýrum í Dýrafirði en hún átti fyrir son sem ólst upp hjá þeim. Árið 1984 fékk Ingi verðskuldað riddarakrossinn og heiðursborgari var hann bæði Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar. Alls urðu hans ljóðabækur fimm og allar báru þær upphafið bjarta sól og það gerði einnig hans ljóðasafn Sóldagar er kom fyrst út 1993 og svo árið 2007 með þremur áður óbirtum ljóðum. Það voru sveitungar og frændsystkyni sem stóðu að útgáfunni.
Elfar Logi Hannesson, blekbóndi Dýrafirði.
Heimildir:
BB.is. Menningar-Bakki. 15.1. 2021.
Morgunblaðið 7. 9. 2002.
Sóldagar. Guðmundur Ingi Kristjánsson, 2007.

Kirkjuból í Bjarnadal.