F. 19. október 1905 Kirkjubóli Valþjófsdal Önundarfirði. D. 21. október 1991.
Öndvegisverk: Skjaldamerkið, Mona Lisa, Bátur í vör verbúðar.
Hin íslenska listasaga er svo fjölbreytt og viðamikil að sumt kemst því miður ekki í söguna sem er mjög miður því þar er einmitt sagan hve einstökust. List hinna sjálflærðu vill oft verða utan listasögunnar þó einn og einn listamaður af náttúrunnar hendi rati í hina innlendu listasögu. Einn þessara utannefndu listamanna er án efa Guðmunda Jóna Jónsdóttir frá Valþjófsdal í Önundarfirði sem var sannlega náttúrunnar listakona því efniviðinn sótti hún einmitt í náttúruna sjálfa.
Náttúrunnar list
Fædd og uppalin á Kirkjubóli í Valþjófsdal en gekk ung að eiga Gunnar Guðmundsson og síðar reistu þau sitt Hof í Dýrafirði hvar þau hófu búskap. Síðar fluttu þau í þorpið við þann fjörð hvar þau byggðu eining sitt Hof og þar vaknaði einmitt listamaður í þeim báðum. Guðmunda, eða Munda einsog hún var jafnan kölluð fór á undan í listina þá 59 ára en Gunnar byrjaði ekki að mála fyrr en 74 ára. Gunnar rifjaði upp þeirra listupphaf í viðtali í blaðnu Heima er bezt árið 1984: Munda byrjaði um 1964 að fást við myndgerð sína. Sveinn Númi Vilhjálmsson, dóttursonur okkar, gaf henni grip frá Mývatnsöræfum, sem kveikti löngunina til að setja saman eitthvað úr steini, skeljum og öðru úr ríki náttúrunnar. Þegar við fórum á bíl okkar umhverfis landið safnaði hún ýmsum sérkennilega lituðum og löguðum steinum, skeljum og fleiru. Bjó hún til litla gripi sem hún gaf kunningjum fyrst í stað. Síðan fór eftirspurnin vaxandi og nú hefur hún haldið 15 sýningar á verkum sínum, aðallega úr steinmulningi, auk þess sem mikill fjöldi fólks sækir okkur heim til að skoða og kaupa það sem við höfum á boðstólum hér heima. Guðmunda hefur 4 sinnum sýnt í Mokkakaffi í Reykjavík, einnig á Hallveigarstöðum og á flestum Vestfjarðanna.
Munda var sannlega náttúrulistamaður í öllum merkingum þess orðs. Hún vann með efni náttúrunnar í verkum sínum sem og túlkaði hana í list sinni. Í fjöruna sótti hún jafnan sinn efnivið í formi skelja, sands, kalkþörunga og margs konar gersama er fjaran sífellt veitir og um leið endurnýjar. Á vinnustofunni á Hofi var svo tekið til við að listast með efniviðinn. Ferlið fólst oft í því að vinna efni fjörunnar og náttúrunnar til. Þá var gott að hafa mortel til að mylja skeljar sem önnur fjörugersemi. Barnabörn hennar muna mörg eftir því að hafa hjálpað ömmu sinni við þessa iðju. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft því mörg þeirra hafa einmitt fetað listaveginn. Nægir það að nefna Vilborgu Davíðsdóttur, skáldkonu, og Marsibil G. Kristjánsdóttur, fjöllistakonu.
Þegar búið var að mylja efnið og flokka var það sett í ítlát og þá var gjarnan notast við mjólkurfernur er höfðu verið styttar að ofan um góðann helming. Næst var fundinn til einhver hlutur einsog bara næsta krossviðsplata, ekkert nauðsynlegt að hún væri í eðlilegri lögun og svo var henni breytt í náttúrulistaverk. Stundum var skrautað á pappadiska og jafnvel glerflöskur. Á myndflötinn var svo settur vænn skammtur af trélími og svo var mulda efniviðnum stráð yfir svo úr urðu alls konar listaverk. Stundum bóndabær, bátur í verstöð, tilbúið landslag, dýr, skjaldamerkið var einnig vinsælt myndefni að ógleymdu fólkinu og sögupersónunum. Þar var gallerýið fjölbreytt allt frá Jesúm Kristus til Edith Piaff, Vigdísar Finnbogadóttur, Pavarotti og ekki má gleyma Gylfa Ægissyni.
Listin til fólksins
Listahjónin Munda og Gunnar áttu sannlega sinn þátt í því að koma listinni til fólksins og það í bókstaflegri merkingu. Þau voru líkt og helsingjarnir, um leið og sumraði fylltu þau bifreið sína af listaverkum og brunuðu í næsta þorp. Svo var bara bankað á dyrina og listaverk boðin heimilisfólki oftar en ekki á svokölluðu tómbóluverði jafnvel kaupfélagsverði. Margir fengu ekki einu sinni að borga, nema þá í kaffi og með því. Svo var áfram skundað í næsta þorp og alþýðulist þar boðin blessuðu fólkinu. Enda er það svo að verk listahjónanna á Hofi er að finna á mörgu heimilinu fyrir vestan og reyndar einnig víðar. Oft vilja listaverkin einmitt fara líkt og farfuglarnir á annað heimili er listkaupandinn hefur haldið á önnur svið. Þá fær verkið oftast nýtt heimili þó stundum hverfi þau í hvergiheima á einhverja öskuhauga. Því miður hafa einmitt listaverk þeirra sjálfmenntuðu, náttúrulistafólksins, hlotið þau aumu örlög. En þó er oft ein von. Að sá er eigi vill taka verkið til sín ákveði að fara með það frekar á einhvern góðan markað. Þangað rata margir smekkvísir listunnendur í leit að einstakri list. Eitthvað til að skrauta sitt heimili. Allra heilla hafa markaðir þessir sprottið upp víða um land og átt þátt í að veita mörgu listaverkinu framhaldslíf.
Svo skemmtilega vill til að ritari hefur fundið ófá listaverk eftir Mundu og Gunnar, Listahjónin á Hofi, á ofannefndum mörkuðum og það er sko miklu gjöfulla en að vinna í monninga lottóti.
Elfar Logi Hannesson
Heimildir: Gunnar Guðmundsson frá Hofi Endurminningar, Vilborg Davíðsdóttir. Heima er Bezt, sept. – okt. 1984. Leiklist og list á Þingeyri, 2020, Elfar Logi Hannesson.

Bátur við verbúð.
