Vestfirðir: hæstu fasteignagjöldin á Patreksfirði

Frá Patreksfirði. Hæstu fasteignagjöldin á Vestfjörðum eru þar skv. skýrslu Byggðastofnunar.

Byggðastofnun hefur birt útreikninga á fasteignagjöldum sem greiða þarf á þessu ári af svonefndu viðmiðunarhúsi.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2025 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2024. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 48 sveitarfélögum.

Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 67,1 m.kr. en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 113,3 m.kr. að meðaltali.

Til fasteignagjalda teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld. Meðaltal heildarfasteignagjalda fyrir viðmiðunareign er um 502 þ.kr. árið 2025.

Patreksfjörður : 5. hæstu gjöldin á landinu

Hæstu fasteignagjöldin á landinu eru á Selfossi 721 þúsund krónur og á Egilsstöðum 718 þúsund krónur. Patreksfjörður er í fimmta sæti með heildarfasteignagjöld viðmiðunarhússins 663 þús kr. Á höfuðborgarsvæðinu eru meðaltalsfasteignagjöldin 485 þúsund krónur af viðmiðunarhúsinu.

Næst koma Tálknafjörður og Bolungavík , sem eru í 21. sæti á landslistanum yfir fasteignagjöldin með 581 þúsund krónur.

Í skýrslu Byggðastofnunar eru ekki upplýsingar um fasteignagjöldin af viðmiðunarhúsinu ef það væri á Drangsnesi eða á Reykhólum.

DEILA