Veiðigjald fyrir þorsk og ýsu var á síðasta ári 7,5 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum sem fram koma í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjald sem eru til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Miðað við ákvæði frumvarpsins hefði veiðigjaldið orðið 13,1 milljarður króna ef þau hefðu gilt á síðasta ári. Hækkunin er um 5,6 milljarðar króna.
Þá á eftir að taka tillit til nýrra ákvæða um frítekjumark fyrirtækja gagnvart veiðigjaldinu, sem ætlað er að lækka álagt veiðigjald á minni fyrirtæki. Frítekjumarkið var 555 milljónir króna í fyrra en hefðu verið 1.270 milljónir króna samkvæmt nýju reglunum.
Hækkunin er greind eftir kerfum. Hún lendir að mestu hjá aflamarksskipum. Veiðigjaldið hækkar þar úr 5,9 milljörðum króna í 10,4 milljarða króna fyrir 2024. Í krókaaflamarkskerfinu hækkar veiðigjaldið um 1 milljarð króna og um 166 m.kr. í strandveiðikerfinu. Í þessum tölum á eftir að taka tillit til hækkunar á afslætti vegna breyttra regla um frítekjumark.
