Utanríkisráðherra á Vestfjörðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra er á Vestfjörðum í dag og á morgun. Hún kom keyrandi vestur í gær, hafði veður af því að veðurspáin fyrir daginn væri ekki góð fyrir flug og fór því akandi frekar en að taka þá áhættu að láta veðrið spilla skipulagðri dagskrá.

Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og Patreksfirði og þá fer fram opinn kvöldfundur á Ísafirði. Tímasetningar eru sem segir:

  • Opinn viðtalstími í Vestfjarðastofu – mánudaginn 17. mars kl. 16.00-18.00
  • Opinn fundur á Dokkunni á Ísafirði – mánudaginn 17. mars kl. 20.00
  • Opinn viðtalstími á bæjarskrifstofu Vesturbyggðar – þriðjudaginn 18. mars kl. 16.00-18.00

Í stuttu samtali Bæjarins besta við Þorgerði Katrínu kom fram hjá henni að hún myndi í dag hitta sveitarstjóra á norðanverðum Vestfjörðum og eiga með þeim fund. Þá væri á dagskránni að fara í heimsókn í Kerecis á Ísafirði og hitta lögreglustjórann á Vestfjörðum. Sem utanríkis- og varnarmálaráðherra þá yrði auðvitað farið upp á Bolafjall í Ratsjárstöðina sem þar er og hitta starfsmenn stöðvarinnar.

Utanríkisráðherra hafði á orði að vegirnir í Dölunum væru slæmir og sagði að það væri verkefni ríkisstjórnarinnar að finna meira fé í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu. Ástandið væri þannig að það væri skilljanlegt að kallað væri eftir því um allt land.

Þorgerður Katrín lafði áherslu á að það væri eitt af verkefnum utanríkisráðherra að gæta að hagsmunum útflutningsatvinnuveganna og nú þyrfti að leitast við að sigla framhjá tollastríði sem myndi hafa alvarleg áhrif laxeldið og sjávarútveginn, að ekki væri talað um ferðaþjónustuna.

DEILA