Ríkið og sveitarfélögin hafa gert samkomulag um breytingar á fyrirkomulagi á uppbyggingu hjúkrunarheimila með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar og breytingar á fjárlögum.
Í samkomulaginu felst að ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila verður alfarið á ábyrgð ríkisins frá og með 1. júlí 2025 eða frá og með gildistöku á breytingum á núgildandi 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.
Frá 1. júlí 2025, ef fyrirhugaðar lagabreytingar ganga eftir, bera sveitarfélög framvegis ekki lengur ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar og leigu hjúkrunarheimila, auk þess sem sveitarfélögum verður ekki lengur skylt að úthluta lóðum án greiðslu gatnagerðargjalda.
Þegar sveitarfélög úthluta lóðum undir hjúkrunarheimili verður það hins vegar áfram gert án lóðarleigu og án byggingarréttargjalda enda er um almannaþjónustu að ræða. Samkomulag þetta hefur þó ekki áhrif á ábyrgðar- og kostnaðarskiptingu hjúkrunarheimila sem eru í byggingu.
Áætlað er að fjárhagslegt umfang verkefnisins geti orðið um 1,6 ma. kr. árlega en það miðar við áætlaða þörf á 1.600 hjúkrunarrýmum næstu 15 ár.
Samningsaðilar eru sammála um að taka þurfi afstöðu til eignarhalds og ábyrgðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar eldri hjúkrunarheimili. Samningsaðilar munu því setja á fót stýrihóp sem falið verður að útfæra nánar skiptingu á eignum milli ríkis og sveitarfélaga.
Gengið er út frá því að þar sem um sameiginlegt eignarhald ríkis og sveitarfélaga er að ræða muni
eignarhlutur sveitarfélaga í eldri hjúkrunarheimilum færast yfir til ríkisins til að einfalda verka- og
ábyrgðarskiptingu með sambærilegum hætti og gert var með eignarhlut ríkisins í grunnskólahúsnæði þegar það færðist yfir til sveitarfélaga. Ríkið mun þá jafnframt alfarið taka yfir viðhaldsskyldu á slíkum eignum sem sveitarfélög bæru annars í samræmi við eignarhlutdeild í viðkomandi eign.