Thai Tawee Ísafirði: fimm ára

Bjarki og Pannipha. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Um mánaðamótin voru rétt fimm ár síðan Sigurður Bjarki Sigurvinsson og eiginkona hans Pannipha tóku við rekstri Thai Tawee, tælenskum veitingastað í Neistahúsinu. Þau keyptu staðinn af Grétari Helgasyni sem hafði rekið hann þrjú ár. Bjarki sagði í samtali við Bæjarins besta að innan tveggja vikna hafi covid19 verið komið til sögunnar og loka þurfti staðnum skömmu síðar í mánaðartíma. Á þeim tíma ríkti alger óvissa um hvað verða mundi og láta þurfti hvern dag nægja sína þjáningu.

Úr faraldrinum rættist um sumarið og var mikið að gera þar sem ferðamannastraumur Íslendinga var fyrst og fremst innanlands. Bjarki segir að fljótlega hafi verið ráðið að beina viðskiptunum sem mest í sölu yfir borðið til viðskiptavina sem tóku matinn heim. Það hafi gert gæfumuninn.

Nú eru þessir erfiðleikar að baki og reksturinn gengur vel að sögn Bjarka. Alls eru fimm heilsárstörf sem byggjast á þessa vinsæla veitingastað. Sumarmánuðina er opið alla daga vikunnar en annars er opið alla daga nema sunnudaga.

DEILA