Sjálfstæðisflokkur: styðja Vatnsdalsvirkjun

Fundarboðendur Jens Garðar Helgason, varaformaður og Vilhjálmur Árnason, ritari. Á milli þeirra er starfsmaður þingflokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins forfallaðist vegna áríðandi þingstarfa.

Fram kom á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu í gær að bæð Jens Garðar Helgason, varaformaður flokksins og Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins styðja hugmyndir um Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri fór yfir umsókn Orkubúsins til Umhverfis- , orku- og loftalagsráðuneytisins þar sem farið er fram á að aflétta að hluta til friðunarskilmálum í Vatnsfirði svo unnt verði að taka Vatnsdalsvirkjun fyrir í rammaáætlun og láta gera umhverfismat fyrir 20 -30 MW virkjun í botni Vatnsfjarðar. Elías sagði að ef af þessu yrði myndi raforkuöryggi á Vestfjörðum aukast um 90%. Erindið er enn óafgreitt í ráðuneytinu þrátt fyrir að rúmlega eitt ár sé síðan það var sent.

Bæði Jens Garðar og Vilhjálmur voru fylgjandi því að verða við erindinu. Fram kom einnig hjá Jens Garðari að hann er almennt mjög gagnrýninn á rammaáætlunina sem tæki til þess að ákvarða virkjunarkosti og kvað hana ónýtt tól sem tæki alltof mörg ár.

Jens Garðar Helgason, varaformaður ræddi töluvert um orkumálin og taldi mikla þörf á frekari virkjunum. Nefndi hann að Landsvirkjun teldi þörf á 5.000 GWh fram til 2030 til viðbótar við núverandi orkuframleiðslu en í nýlegri tillögu stjórnvalda væri aðeins lagðir til nýir orkukostir upp á um 1.800 GWh. Vandinn væri einkum í því að regluverkið væri of viðamikið sem þýddi að það tæki 15 – 20 ár að koma virkjunarkosti til framkvæmda, vandinn væri að verulegu leyti heimatilbúinn.

Fundurinn var vel sóttur. Í framsöguerindum varaformanns og ritara var vikið að ýmsum málum svo sem áætlunarflugi til Ísafjarðar og var ekki talinn vafi á því að það yrði áfram heldur fremur spurning um hvernig.

Spurt var um nýtt kílómetragjald á bifreiðar og kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn er heldur andvígur því og telur að um verði að ræða auknar álögur á landsmenn.

Á fundinum kom einnig fram andstaða við hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi og sagði Jens Garðar að ríkisstjórnin hygðist hækka álögur á ferðaþjónustu og tvöfalda veiðigjaldið. Þá var rætt um innviðagjald á skemmtiferðaskip og breytingar á strandveiðkerfinu sem tryggja eiga 48 daga sókn hvers báts og komu fram áhyggjur af þessum áformum.

Boðið var upp á súpu og brauð á hádegisfundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Fundurinn var vel sóttur.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA