Martha Kristín Pálmadóttir var endurkjörin formaður Sigurvonar á aðalfundi krabbameinsfélagsins á fimmtudag. Öll stjórnin var endurkjörin á fundinum og því enn skipuð Fjölni Ásbjörnssyni, Hjördísi Þráinsdóttur, Davíð Birni Kjartanssyni og Elísu Stefánsdóttur auk Mörthu. Varamenn eru Heiðrún Björnsdóttir og Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.
Í skýrslu fráfarandi stjórnar kom fram að eitt stærsta verkefni ársins er aðstoð félagsins við innréttingu nýs lyfjabergis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem ætlað er einstaklingum með krabbamein. Sigurvon hefur í samráði við starfsmenn stofnunarinnar keypt ýmsa innanstokksmuni og aðra hluti sem nýtast munu gestum herbergisins. Fyrir rúmum áratug var Sigurvon í fararbroddi í peningasöfnun til þess að hægt væri að bjóða lyfjagjöf í höfuðstað Vestfjarða, Ísafirði. Hófst þá söfnun fyrir lyfjaskáp og fjórir hjúkrunarfræðingar sóttu námskeið. Sigurvon sá einnig um að innrétta herbergið og kaupa innanstokksmuni ásamt fleiri munum. „Með tilkomu þess bauðst einstaklingum í krabbameinsmeðferð loks að fá lyfjameðferð í heimabyggð. Óneitanlega var um mikla framför að ræða sem sparar bæði tíma og peninga en ekki síst sparar orku fólks því það tekur á, bæði andlega og líkamlega, að ferðast reglulega suður til Reykjavíkur. Var því mikið hagsmunamál hjá stjórn Sigurvonar að stuðla að því að nýja herbergið væri einnig sem best búið,“ segir í skýrslunni.
Í kjölfarið urðu meðal fundargesta umræður um mikilvægi slíks herbergis og hvort ekki væri hægt að yfirfæra þjónustuna einnig yfir á börn sem þurfa lyfjameðferð. Eins og gefur skilja er það mikið álag fyrir barnafjölskyldur að þurfa að fara reglulega suður til að sækja læknismeðferð. Yrði það mikill akkur ef hægt væri að auka góða þjónustu HVest til þess að hún myndi einnig ná til barna. Var samþykkt að koma þeirri áskorun á framfæri við stofnunina.
Einnig kom fram á fundinum að starf félagsins hefur staðið straustum fótum síðustu ár, þökk sé dyggum stuðningi samfélagsins.