Aðalfundur Samfylkingarinnar á Vestfjörðum var haldinn miðvikudagskvöldið 12. mars, í Rögnvaldarsal á Edinborg.
Á fundinum var farið yfir starf félagsins frá síðasta aðalfundi sem var 22. mars 2023. Miklar breytingar hafa orðið á hinu pólitíska landslagi s.l. tvö ár. Óvinsæl ríkisstjórn farin frá völdum og ný ríkisstórn Kristrúnar Frostadóttir komin til valda, binda jafnaðarmenn miklar vonir við þá ríkisstjórn.
Á fundinum var farið yfir gott starf fráfarandi stjórnar, mikil vinna farið fram og framundan eru kosningar til sveitastjórnar á næsta ári.
Á fundinum var Gylfi Þór Gíslason, endurkjörinn formaður félagsins.
Aðrir í stjórn voru endurkosnir: Emil Emilsson, Ísafirði, Eysteinn Gunnarsson, Hólmavík, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Patreksfirði, Gunnhildur Elíasdóttir, Þingeyri, Magnús Bjarnason, Ísafirði.
Finney Rakel Árnadóttir, Ísafirði kom ný inn í staðinn fyrir Bryndísi Friðgeirsdóttur.
Á aðafundinum var Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, gestur fundarins. Hún ræddi um hennar nýja starf sem bæjarstjóri og stöðu mála. Einnig var til umræðu komandi kosningar. Spunnust fjörugar umræður um málefni bæjarins og Í-listans.
ályktanir aðalfundar
Á aðalfundinum voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:
„Aðalfundurinn lýsir yfir ánægju sinni með nýja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar og bindur miklar vonir við stjórnin nái að auka jöfnuð fólksins í landinu.
Megin verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að styrkja innviði samfélagsins eftir vanrækslu undanfarinna ára, þar sem afleiðing hefur verið veruleg innviðaskuld sem er að finna víða í samfélaginu.
Samgöngumál eru einn þeirra málaflokka sem vanræktur hefur verið og bitnar sú vanræksla ekki síst á Vestfirðingum. Því skorar fundurinn á ríkisstjórnina að bæta þar verulega úr svo hægt verði að sinna nauðsynlegu viðhaldi vega, flýta nýbyggingu vega svo sem í Árneshreppi og Vesturbyggð og hefja jarðgagnagerð að nýju.
Þá ætlast fundurinn til þess að flug til Vestfjarða verði tryggt í framtíðinni.“