
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar sem munu auka tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum. Áætlað er að þá muni tekjur af veiðigjaldi uppsjávartegunda hækka um 3–4 milljarða kr. árlega og veiðigjald í þorski og ýsu hækka um 5–6 milljarða kr. árlega miðað við óbreytt aflamagn. Samtals er áætluð hækkun 8 – 10 milljarðar króna á ári.
Samkvæmt töflu 15 í frumvarpsdrögunum er áætlað að innheimt veiðigjald verði 17 – 19 milljarðar króna á ári frá og með næsta ári 2026 fram til 2030. Er þetta nærri tvöföldun á innheimtu veiðigjaldi frá því sem verið hefur.

Veiðigjald þorsks verði 45,59 kr/kg – eldislax er 45,03 kr/kg
Birt er tafla um fjárhæð hvert veiðigjald á þorski og ýsu hefði verið á árunum 2023 til 2025 miðað við reglur frumvarpsins. Veiðigjald í þorski sem er 28,68 kr/kg í ár myndi vera 45,59 kr/kg ef frumvarpið væri orðið að lögum. Hækkunin er um 71%. Til samanburðar þá er fiskeldisgjaldið í ár af frjóum eldislaxi 45,03 kr/kg. Það var á síðasta ári 30,77 kr/kg og hækkað um 46% milli ára. Hækkun fiskeldisgjaldsins frá 2023 er enn meiri eða 146% en það var þá 18,33 kr/kg.
