„Okkar afstaða er sú, að þær breytingar sem Jöfnunarsjóðurinn stendur fyrir eru löngu þarfar, þ.e. að auka gegnsæi á því hvernig fjármunum sjóðsins er skipt. Það hefur verið kvartað undan því um árabil að fáir hafi vitneskju um grundvöll úthlutuna úr sjóðnum.“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi.
vantar byggðavinkilinn
„Það sem er hins vegar sett inn í formúluna núna er hagræðingagildi sem er minni sveitarfélögum afar óhagstætt. Þ.e. að miða við hagstæða stærð á sveitafélagi og umbuna þeim. Það er rétt að gera það á markaðslegum forsendum, en gilda þær reglur um byggð í landinu? Það vantar alveg byggðavinkilinn, umbuna litlum sveitarfélögum sem halda uppi samfélagi og byggð á landsbyggðinni. Hlutfallið af tekjum sem fara til þeirra er aðeins lítið brot af heildapottinum, en byggðasjónarmiðið svo sterkt.“
Ingibjörg segir það grafalvarlegt fyrir Reykhólahrepp að missa mestan hluta útgjaldajöfnuðar frá sér, eins og tölurnar í frumvarpinu sýna, það eru 90 millj. miðað við stöðu og úthlutanir árið 2024. Þetta eru tæpar 10% tekna samstæðunnar. Sé einvörðungu miðað við sveitarsjóð, A hluta, er lækkun framlagsins um 13% af tekjum hans.
„Hvernig á sveitarfélagið að afla þessarra tekna? Eina leiðin er sameining sveitarfélaga sem frumvarpið ýtir undir, eða fjölga íbúum.“