Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum hefur fengið 36,4 m.kr. styrk frá Innviðasjóði þar sem ætlunin er að bæta vöktun og gagnasöfnun sem tengist vistkerfi hafsins í kringum Ísland.
Verkefnið ber heitið Mælinga- og Athugunarkerfi Náttúru Í hafinu – MÁNI (e. Marine Open Observation Network – MOON).
Í kynningu Háskóla Íslands á verkefninu segir að markmiðið með MÁNI sé að byggja upp næstu kynslóð hafrannsókna með áherslu á hagkvæma, sjálfvirka söfnum gagna, aukna samvinnu rannsakenda og örugg og opin gagnakerfi sem byggð verða í samstarfi við innviðakjarna upplýsingatækni (e. Icelandic e-Research Infrastructure, IREI) sem Upplýsingatæknisvið HÍ hefur umsjón með.
bæta getu til hafrannsókna
„MÁNI mun skapa ný tækifæri til rannsókna á breytingum í hafinu og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni. Með því að nýta nýjustu tækni og samstarfsnet vísindastofnana víða um land bætum við getu til hafrannsókna, aukum möguleika til kennslu og nemendaverkefna, og eflum vitund almennings um mikilvægi hafsins,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum sem leiðir verkefnið.
Hún bendir á að með verkefninu sé einnig verið að bregðast við auknum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands til fjölbreyttari rannsókna, verndar og vöktunar á hafinu sem tengist samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem kveður á um að vernda 30% hafsvæða fyrir 2030.