Púkinn fer fram dagana 31. mars-11. apríl

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, verður haldin í þriðja sinn dagana 31. mars-11.apríl.

Á hátíðinni verður fjöldi spennandi viðburða fyrir vestfirsk börn. Hryggjarstykki hátíðarinnar að þessu sinni eru valdeflandi leiklistarsmiðjur, þar sem unnið verður eftir aðferðum Theatre of the Opressed, undir handleiðslu Birgittu Birgisdóttur sem heimsækir krakka á miðstigi í grunnskólum á Vestfjörðum.

Hátíðin sem áður er í góðu samstarfi við List fyrir alla og munu hinir hæfileikaríku Frach bræður fara víða með tónleikadagskrána Árstíðir, en á þeim stöðum sem þeir verða ekki býður List fyrir alla upp á Eldblómið í maí. UngRIFF hefur þegar heimsótt bæði Reykhóla og unglingastigið á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.

12 verkefni fengu styrk úr Púkasjóðnum til að bjóða upp á vandaða barnamenningu.

Katerina Blahutova kemur með Sæskrímslabúrið inn í grunnskólana á Bíldudal og Ísafirði. Trumbur, tröll og jötnar fara fram í grunnskólanum á Drangsnesi og Emil Kohlmayer verður með vinnustofur í sviðslistum fyrir krakka í Vesturbyggð. Aðrir viðburðir sem hlutu styrk en verða haldnir utan skóla eru: Vestfirska þjóðsagnagerðin sem haldin verður á Galdrasýningunni á Hólmavík, Þjóðsögustofan sem haldin verður í Bókasafni Vesturbyggðar, Púkapodcast – hlaðvarpsgerð fyrir ungmenni, verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, Ævintýraheimur myndskreytinga, verður í Listasafni Ísafjarðar, Námskeið í frásagnarlist með Ragnheiði Þóru Grímsdóttur verður á Reykhólum, Langspilssmiðjur með Eyjólfi Eyjólfssyni á Hólmavík, Safnabingó Minjasafns Egils Ólafssonar, Furðuverur á flandri í Bókasafninu í Bolungarvík og Tröll segja sögur á Bókasafninu á Ísafirði.

DEILA