Í dag hefst Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða. Það er einstakt gleðiefni að geta boðið vestfirskum börnum upp á skemmtilega menningarviðburði heima í héraði og leyfa þeim að kynnast ólíkum listgreinum. Hryggjarstykki hátíðarinnar í ár eru leiklistarsmiðjur með Birgittu Birgisdóttur og var öllum grunnskólum á svæðinu boðið að þiggja slíkt fyrir nemendur á miðstigi.
Unnið verður með aðferðafræði Theatre of the oppressed sem stuðlar að valdeflingu, samkennd og lausnaleit í gegnum leik og samtal. Í smiðjunum fá nemendur að kanna eigin rödd, tjá sig í gegnum leiklist og takast á við raunveruleg viðfangsefni á kraftmikinn og skapandi hátt.
Birgitta Birgisdóttir hefur gert garðinn frægan sem leikkona og nú í seinni tíð einnig sem leikstjóri. Hennar síðasta verkefni var einmitt að leikstýra krökkunum í Menntaskólanum á Ísafirði í hreint stórkostlegri uppfærslu á söngleiknum GREASE.
Ungmennaráð Vestfjarða valdi þema fyrir Púkann í ár sem er vestfirskar þjóðsögur og er það mjög sýnilegt í flestum þeirra viðburða sem Púkinn styrkti fyrr á árinu.
Ungmennaráðið hefur einnig valið þema fyrir Púkann 2026 sem haldinn verður dagana 27.apríl-8.maí og verður þá unnið með hafið sem viðfangsefni.