Fyrir réttum tuttugu árum varð til hópur einstaklinga, fyrirtækja og opinberra stofnana, sem vildi koma á fót menntastofnun á háskólastigi á Vestfjörðum. Í sjálfu sér var það rökrétt framhald baráttu þeirra einstaklinga sem börðust fyrir mennta/framhaldsskóla í heimabyggð á Vestfjörðum, en slíkur var stofnaður 1970 og var löngu búinn að sanna ágæti sitt, festa sig í sessi og auka menntunarstig Vestfirðinga mikið.
Eins og alltaf voru einhverjar úrtöluraddir en þær höfðu ekki nokkur áhrif á frumkvöðla stofnunar Háskólaseturs, sem voru 42 og héldu þeir ótrauðir áfram og beittu sér fyrir tilurð þess.
Nú tuttugu árum síðar þegar litið er um öxl er ekki hægt að segja annað en að vel hafi til tekist.
Svo vel að þessi stofnun hefur farið langt fram úr villtustu draumum okkar stofnenda.
Ísafjörður, sem hefur frá alda öðli verið mikill menningar- og menntabær hefur fyrir tilstilli Háskólaseturs Vestfjarða komist á „alheimskortið“ sem slíkur og þannig hefur hróður og kostir þessa landshluta orðið stórum hluta heimsbyggðarinnar augljós. Leyfi ég mér að fullyrða að einmitt það eigi ekki hvað síst þátt í því hversu margir ferðalangar utan úr heimi sækja Vestfirði heim. Nemendur skólans hafa gætt mannlíf okkar Vestfirðinga nýjum straumum, sem hafa munu veruleg áhrif til góðs fyrir menningu, atvinnulíf og víðsýni okkar bæði í nútíð og framtíð.
En vel að merkja, þessi árangur hefði ekki náðst án tilvistar forstöðumanns, starfsmanna skólans og samhentrar stjórnar hans, sem okkar „gamli“ bæjarstjóri Halldór Halldórsson fór lengst af fyrir og í dag Harpa Grímsdóttir. Þeim öllum ber að þakka fyrir frábært og óeigingjarnt starf í þágu Vestfjarða.
Vestfirðingar, til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða. Haldið áfram að styðja þessa stofnun, sem verður áður en langt um líður, ein af sterkustu innviðastoðum Vestfjarða.
Hér með hvet ég alla einstaklinga og fyrirtæki á Vestfjörðum að gaumgæfa starfsemi þessarar merku stofnunar og leggja henni lið að fremsta megni, því hún á eftir að hafa mikil áhrif á framtíð Vestfjarða.
Þorsteinn Jóhannesson Dr. Med. Skurðlæknir, fyrrverandi yfirlæknir á sjúkrahúsi Ísafjarðar, einn af stofnendum Háskólaseturs og formaður fulltrúaráðs þess til 9 ára.