Mikill munur á húsaleigu

Alls tóku 1.400 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS í febrúar á sama tíma og 791 samningur féll úr gildi. Gildum leigusamningum fjölgaði þannig um 609 milli mánaða. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá.

Af þeim 1.400 samningum sem tóku gildi í febrúar voru 77 prósent á vegum einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga, en HMS metur markaðsleigu út frá slíkum samningum. Hlutfallið var sambærilegt í febrúar árið 2024 þegar 79 prósent af 1.297 nýjum samningum voru gerðir á markaðsforsendum. 

Meðaltal markaðsleigu í nýskráðum samningum í febrúar var 263 þúsund krónur og er óbreytt frá fyrri mánuði. Sé litið til leiguíbúða sem eru minni en 80 fermetrar var meðaltal markaðsleigu 231 þúsund krónur og hækkaði um 1,3 prósent milli mánaða. Fyrir stærri leiguíbúðir var leiguverð að meðaltali 296 þúsund krónur og lækkaði um 2,1 prósent milli mánaða. 

Markaðsleiguverð er nokkuð breytilegt eftir landshlutum og sveitarfélögum, eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni en hún sýnir meðaltal markaðsleigu í sveitarfélögum þar sem gerðir voru fimm eða fleiri leigusamningar í mánuðinum.

DEILA