Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir marsmánuð. Hægt er að sækja um til og með 20. mars. Um er að ræða fyrstu úthlutun ársins, en HMS mun einnig opna fyrir umsóknir í apríl.
Mikil eftirspurn er eftir hlutdeildarlánum og fyrir helgi höfðu borist umsóknir að fjárhæð 416,7 millj.kr. en til úthlutunar eru 350 millj.kr.
Dugi fjármagn ekki sem er til úthlutunar er dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjanda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána í samræmi við forgangsreglur. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og eru ætluð fyrstu kaupendum, sem og þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Markmið lánanna er að aðstoða fyrstu kaupendur í að komast inn á húsnæðismarkaðinn með því að brúa bilið við fasteignakaup.