María Rut: ríkisstjórnin mun tryggja flug til Ísafjarðar

María Rut Kristinsdóttir, alþm. Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi segir aðspurð um viðbrögð hennar við fréttum um ákvörðun Icelandair að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar að Vestfirðingar séu í viðkvæmri stöðu þegar kemur að tryggum samgöngum:

„Ég var mjög hugsi eftir fréttir gærdagsins um stöðu mála og hversu viðkvæmir Vestfirðingar eru gagnvart þessum grunninnviðum sem tryggar samgöngur eru fyrir íbúa svæðisins. Ekki síst þegar það kemur að því að sækja nauðsynlega þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Ég vakti máls á þessu í liðnum störf þingsins rétt í þessu og hef átt í góðum samskiptum við þingmenn kjördæmisins og Vestfjarðarstofu. Ráðherra samgöngumála hefur nú lýst því yfir að ríkisstjórnin ætli að tryggja að það verði flogið til Ísafjarðar. Ég fagna fumlausum viðbrögðum þar.

Það er nú þannig að í öllum áskorunum liggja líka tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það kunna Vestfirðingar manna best. Enda erum við vön því að búa við stöðuga óvissu og stunda lausnamiðaða nálgun. Stóra málið er að tryggja samfellu í áætlunarflugi til svæðisins. Að þjónustan rofni ekki og að stigið verði fast niður og svara lykilspurningum íbúa eins hratt og unnt er.

Það á ekki að vera lögmál að stór hluti íbúa landsins búi við stöðuga óvissu og óöryggi nokkra mánuði á ári. Við getum ekki stöðugt verið að taka eitt skref áfram og tvö aftur á bak þegar það kemur að framtíðarsýn og byggðastefnu um allt land.“

DEILA