Ofanflóð 2025 er yfirskrift málþings um snjóflóð og samfélög sem haldið verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.
Íslensk samfélög búa yfir mikilli seiglu, ekki síst gagnvart áföllum, líkt og í mannskæðum snjóflóðum á Flateyri og í Súðavík 1995 og í Neskaupstað 1974. En hvað er það sem myndar seiglu í samfélagi og virkar verndandi þegar náttúruhamfarir dynja yfir?
Á málþinginu verður sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum í landinu og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur á þróun byggða.
Einnig verður fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.
Meðal fyrirlesara eru:
- Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar
- Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands
- Elías Pétursson, formaður ofanflóðanefndar
- Þóroddur Bjarnason, prófessor við HÍ
- Halla Ólafsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Ísafirði
- Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóðahættumats hjá Veðurstofu Íslands
- Edda Björk Þórðardóttir, dósent við Læknadeild HÍ og klínískur sálfræðingur
- Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn
- Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Þá munu fyrrverandi framkvæmdastjórar sveitarfélaga fara yfir áskoranir sveitarfélaga vegna ofanflóðahættu fyrr og nú.
Skipuleggjendur málþingsins eru Ofanflóðasjóður, Veðurstofa Íslands, Vegagerðin, Almannavarnir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Verkfræðingafélag Íslands og Snjóflóðasamtök Íslands.