Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum segir að lögreglan á Vestfjörðum hafi tekið ákvörðun um að óska eftir aðstoð sérsveitar.
„Ég tel að í upphafi aðgerða hafi legið fyrir mun meira en rökstuddur grunur um tiltekin atvik og að lögregla hafi ekki getað annað en brugðist við. Í því fólst að óska eftir aðstoð sérsveitar, m.t.t. upplýsinganna sem lágu fyrir. Síðar, eftir talsvert umfangsmikla rannsókn kom í ljós að upplýsingarnar voru ekki réttar og þá var aðgerðum hætt þegar í stað.“
Helgi bætir því við að lögreglan bregðist við útköllum án þess að einhver rannsókn fari fram fyrir fram og ekki er krafist sannana áður en brugðist er við.
„Oft koma útköll í gegnum neyðarlínu. Síðar eftir að lögreglan kemur á staðinn eru atvik stundum ekki eins og útkallið gaf tilefni til. Yfirleitt látum við borgarana njóta vafans og bregðumst hratt við, en stoppum svo aðgerðir ef í ljós kemur að ekki er tilefni til þeirra.
Það var gert í þessu tilfelli og íbúar Bolungarvíkur látnir njóta vafans. Ég tel að viðbragð lögreglu hafi verið í réttu hlutfalli við þær upplýsingar sem í upphafi lágu fyrir. Ég get því miður ekki farið nánar út í hvað lá fyrir í upphafi og hvernig rannsókn lögreglu þróaðist.“