Laxeldi: boða frekari hækkun á fiskeldisgjaldi

Frá laxeldi í Patreksfirði. Sjókvíaeldið er talið bera hærri gjöld.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030, sem kynnt var í morgun, kemur fram að boðuð er hækkun á fiskeldisgjaldi úr 4,3% af af meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi upp í 5%. Á það við um þann eldislax sem fæst 4,8 evrur á hvert kg eða meira. Mun það eiga við um nær allan eldisfisk.

Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 45,03 kr/kg. Á næsta ári hækkar eldisgjaldið upp í 53,53 kr/kg miðað við sömu forsendur um alþjóðamarkaðsverðið og giltu fyrir ákvörðun á gjaldinu fyrir þetta ár og verður þá fiskeldisgjaldið sem ákvarðað var 2020 komið að fullu til framkvæmda.

Hækkunin úr 4,3% af gjaldstofninum upp í 5% leiðir væntanlega til þess að fiskeldisgjaldið myndi hækka upp í 61 kr/kg að öðrum forsendum óbreyttum.

Ekki kemur fram í fjármálaáætluninni hvenær þessi hækkun á að koma til framkvæmda.

DEILA