Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um strandveiðar sem verið hefur í samráðsgátt stjórnvalda hefur fengið 96 umsagnir nú þegar frestur til að skila inn umsögnum er liðinn.
Meðal þeirra sem sendu inn umsögn er Landssamband smábátaeigenda en þar segir, eftir að gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á reglugerðinni á liðnum árum:
„Af framangreindu má álykta að á öllum stigum breytinga hafi það verið markmið löggjafans að koma í veg fyrir að sömu aðilar gerðu út fleiri en einn strandveiðibát.
LS hefur á aðalfundum sínum viljað skerpa á ákvæðinu auk þess að tryggt yrði að raunverulegur eigandi væri lögskráður á bátinn. Samþykkt síðasta aðalfundar var engin undantekning:
„LS leggur til að skipstjóri strandveiðibáts skuli eiga minnst 26% í fyrirtæki sem gerir út strandveiðibát og það skráð í hlutafélagaskrá. Jafnframt að vera þinglýstur minnst sem 26% eigandi af sínum hlut í bátnum og jafnframt prókúruhafi. LS leggur áherslu á að ríkt eftirlit verði með eignarhaldi á bátum.“
Þar sem nú liggur fyrir að veiðidagar til strandveiða verði 48 leggur LS til að 4. mgr. reglugerðarinnar orðist svo:
„„Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi.