Á vordögum 2005 kom undirritaður á stofnfund Háskólaseturs Vestfjarða, sem fulltrúi rannsóknastofnana, en Hafrannsóknastofnun hafði þá um árabil haft mikilvæga starfsstöð á Ísafirði og starfsemi í Vestrahúsinu. Alls voru stofnaðilar 42 talsins, þ.a.m. Hafrannsóknastofnun. Í kjölfarið sat ég í fimm manna stjórn Setursins, m.a. fyrir hvatningu Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, og var ég hluti stjórnar sem fulltrúi rannsóknastofnana allt til ársins 2013.
Það má með sanni segja að seta í stjórn Háskólaseturs hafi verið afar ánægjuleg, bæði vegna frábærra félaga í stjórninni og afbragðs starfsfólks, en ekki síður vegna þeirrar starfsemi, sem þá var í vændum og þess eldmóðs sem til staðar var fyrir verkefninu. Í stjórninni sat í upphafi einvala lið, sem brann fyrir vöxt og viðgang setursins, þau Halldór Halldórsson, sem allan minn tíma var formaður stjórnar, Hjálmar H. Ragnarsson fulltrúi háskólastigsins, Kristján G. Jóakimsson sem tilnefndur var af aðilum vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst Soffía Vagnsdóttir sem kosin var af aðalfundi fulltrúaráðs setursins. Síðar á þessum átta árum mínum í stjórn setursins komu um tíma frá háskólunum þeir Þorsteinn Gunnarsson og Skúli Skúlason, og Jóna Finnsdóttir, sem tók sæti Soffíu árið 2009. Það var alltaf gleði og gaman á stjórnarfundum Setursins.
Fyrsta verkefni stjórnar var að ráða forstöðumann og var Dr Peter Weiss fyrir valinu. Peter er bæverskur að uppruna, en hafði áður kennt málvísindi og bókmenntir við Háskóla Íslands, leiddi einnig starf Tungumálamiðstöðvar HÍ og gegndi stöðu forstöðumanns við Goethe Zentrum í Reykjavík. Peter hlaut doktorsgráðu með ritgerð um hugmyndasögu í málvísindum frá háskólanum í Greifswald í Þýskalandi og meistaragráðu með ritgerð í málvísindum frá háskólanum í Kiel.
Þó mikið úrval umsækjenda hafi verið um starf forstöðumanns, verður það að segjast að það var mikill happafengur að fá Peter til starfa. Vissulega var öll hans menntun og bakgrunnur áhugaverður okkur stjórnarmönnum, en það sem svo áberandi var í hans hugsun og fari, var ástríðan og einlægur áhugi hans fyrir starfinu og fyrir Vestfjörðum (sem hann gjarnan kallar Bestfirði), og áskorunum sem í því fólust. Og þess vegna ekki síst varð Peter fyrir valinu.
Á fyrri stigum undirbúnings Háskólaseturs, voru uppi háværar kröfur um að stofnaður yrði sjálfstæður háskóli á Ísafirði, annað væri gagnslaust. Þau sjónarmið voru þó ofan á að ekki væri skynsamlegt að bæta í fjölda hérlendra háskóla – í harðri samkeppni landa á milli mætti frekar telja að háskólarnir sem fyrir væru á Íslandi væru of litlir til að skila árangri. Og úr varð að stofna Háskólasetur með bakland í öðrum háskólum landsins, en nýta m.a. styrkleika svæðisins til að þróa námsleiðir til meistarprófs. Þar kom fyrst til námsleið í Haf- og strandsvæðastjórnun, síðar námsleið í Sjávarbyggðafræðum. Jafnframt gegndi Háskólasetur Vestfjarða frá upphafi hlutverki sem þjónustumiðstöð fyrir fjarnám á svæðinu og tenging háskóla landsins við Vestfirði, miðstöð þjónustu fyrir rannsóknaraðila, og stuðningur við vettvangsskóla og sumarnámskeið á Vestfjörðum. Þá hefur alla tíð verið markmið Háskólaseturs að styðja og þjónusta starsemi rannsóknastofnana á svæðinu og vera vettvangur nýsköpunar og þróunar, einkum í tengslum við atvinnulífið.
Núna tveimur áratugum síðar, sjáum við hve vel hefur til tekist með val á námsleiðum og starfseminni allri, þar sem megin tilganginum um að stuðla að sterkara samfélagi á Vestfjörðum, hefur náðst. Á Ísafirði hefur fræðasamfélagið stækkað að mun og búseta stórra árganga aðkominna nema hefur á hverju ári sett sterkan svip á bæjarlífið og hagkerfið.
Vestfirðingar og aðstandendur Háskólaseturs geta litið stoltir um öxl og horft til bjartrar framtíðar, enda liggur í augum uppi að þessi þekkingar- og menntakjarni á Ísafirði er kominn til að vera, landi og þjóð til heilla.
Jóhann Sigurjónsson, fyrrv. forstjóri Hafrannsóknarstofnunar