Ísborg ÍS 250 kemur hér til hafnar á Húsavík í ágústmánuði árið 2010 en hún landaði oft hér úthafsrækju.
Ísborg hét upphaflega Hafþór NK 76 og var einn af tólf austur þýskum, svokölluðum tappatogurum, sem voru smíðuð í Stralsund fyrir Íslendinga.
Hafþór var smíðaður árið 1959 og var gerður út frá Neskaupsstað til ársins 1968 en þá keypti Ríkissjóður Íslands skipið og var hann notaður til hafrannsókna við Ísland.
Árið 1978 var Hafþór seldur til Grundarfjarðar þar sem hann fékk nafnið Haffari SH 275.
Fiskverkun Garðars Magnússonar hf. í Njarðvík keypti bátinn frá Grundarfirði sumarið 1983 hélt hann nafni sínu en varð GK 240.
Haffari GK 240 var seldur Álftfirðingi hf. á Súðavík árið 1986 og varð þá Haffari ÍS 430.
Frá miðju ári 1997 og fram til aldamóta bar báturinn nöfnin Haffari SF 430, Erlingur GK 212 og Vatneyrin BA 238.
Það var svo haustið 2000 sem báturinn fékk nafnið Ísborg ÍS 250 sem hann bar all til loka en hann fór í brotajárn sumarið 2019.
Af skipamyndir.com