Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur birt tillögur sínar um úthlutun lóða á Suðurtanga. Leggur nefndin til að Eimskip fái tvær lóðir, Hrafnatanga 6 og Æðartanga 11 með vísan í 6. gr. lóðarúthlutunarreglna Ísafjarðarbæjar sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki eða stofnun á næstu lóð þurfi að eiga möguleika á því að stækka lóð sína. Nefndin telur að tryggja þurfi lóðir fyrir land- og sjóflutninga sem næst hafnar- og gámasvæði. Staðsetning á þessu svæði mun bæta umferðaröryggi á Suðurtanga.
Þá er lagt til að Nora Seafood ehf. fái lóðina Hrafnatanga 4 og Vestfirskir verktakar ehf fái Æðartanga 9.
Ísinn ehf var með umsóknir um nokkrar lóðir en féll frá þeim.
Tillögurnar verða afgreiddar á næsta bæjarstjórnarfundi.