Ísafjarðarbær: útboð á upplýsingatækniþjónustu

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að bjóða út upplýsingatækniþjónustu fyrir Ísafjarðarbæ. Í minnisblaði verkefnastjóra tæknilausna og innkaupa sem lagt var fyrir bæjarráðið segir að þjónustusamningi um kerfisrekstur við Origo hafi verið sagt upp. Ástæðan hafi verið að unnið sé að endurskoðun alls upplýsingatæknikerfis og -samningum sveitarfélagsins.

Í minnisblaðinu segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að mikilli endurskoðun í tæknimálum hjá sveitarfélaginu og nú sé komið „að nauðsynlegu útboði á upplýsingatæknimálum, þar sem samningar eru á óhagstæðum kjörum, verkliðir takmarkaðir í samning og m.a. úreltar þjónustulýsingar, enda samningar orðnir meira en 10 ára gamlir.“

Samningur vegna útboðsins skiptist í þrjá hluta og geta bjóðendur boðið í einstaka liði. Samið verður til til þriggja ára með framlengingarheimild í tvö ár.
Fjar- og vettvangsþjónusta – gildir frá 01.06.2025
Hýsing og rekstur – gildir frá 01.06.2025
Rekstur og vöktun á netumhverfi og netbúnaði – gildir frá 01.07.2025
Bjóðendur geta boðið í einn eða fleiri liði útboðsins, allt eftir vilja og getu, skv. kröfulýsingu og hæfni.

Hagkvæmasta tilboði samkvæmt matsþáttum verður tekið og gerður samningur þar að lútandi. Kostnaðaráætlun mun liggja fyrir við opnun tilboða. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir lækkun á mánaðarlegum kostnaði Ísafjarðarbæjar á upplýsingatæknimálum.

 

DEILA