Innviðafélag Vestfjarða: bregðast verður við hruni í bókunum skemmtiferðaskipa

Tvö skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn sumarið 2023. Innviðagjaldið vinnur gegn jákvæðum áhrifum af skipakomunum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Innviðafélag Vestfjarða lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fækkunar bókana skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar árið 2027. Í tilkynningu frá félaginu segir að ljóst sé að nýtt innviðagjald, sett á með skömmum fyrirvara og án fullnægjandi samráðs, hafi skapað óvissu og leitt til verulegrar fækkunar skipakoma.

Bókanir skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 eru einungis um helmingur þess sem bókað hafði verið fyrir árið 2026 á sama tíma í fyrra.

innviðagjaldið getur unnið gegn innviðauppbyggingu

„Skemmtiferðaskip greiða nú þegar hafnargjöld og önnur gjöld tengd komu sinni á svæðið, og þau gjöld hafa reynst ómetanleg við uppbyggingu á höfnum og öðrum innviðum tengdum þeim. Það er því sorglegt að svokallað innviðagjald hins opinbera muni mögulega leiða til mun minni fjármuna til handa innviðauppbyggingu á Vestfjörðum.“

Þá segir í tilkynningunni:

„Fyrir utan hafnargjöld verja skipverjar fjármunum í höfn, sem styðja við atvinnustarfsemi árið um kring, sem aftur styður við áframhald efnahagsævintýrisins á Vestfjörðum. Atvinnustarfsemi og verðmætasköpun er forsenda skatttekna sem aftur nýtast við uppbyggingu innviða. Neikvæð áhrif gjaldtökunnar eins og hún er í dag koma verst minni byggðum og samfélögum, þar sem jákvæð áhrif skemmtiferðaskipa eru hvað mikilvægust.

Innviðafélagið telur nauðsynlegt að stjórnvöld endurskoði strax þessa skattheimtu og endurhugsi álagningu þeirra á þannig hátt að þau fæli ekki mikilvæga tekjustólpa úr samfélaginu.

Sanngjörn skattheimta og greiðslur til samfélagsins eru algjört skilyrði, en hið opinbera verður að mæta því með fyrirsjáanleika og sanngirni.

Aðgerðir nú munu hafa mikil áhrif á velferð og uppbyggingu Vestfjarða til framtíðar.“

DEILA