Icelandair tilkynnti í gærkvöldi að það myndi á næsta ári hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar. Bogi Nilson, forstjóri sagðist gera ráð fyrir því að flugið muni afleggjast eftir sumarvertíðina árið 2026. Skýringin sem gefin er að hætt verður að nota Bombardier Dash 200-vélar í flugi til Grænlands og þá verður ekki lengur hagkvæmt að nota þær í flugi til Ísafjarðar.
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ sagði aðspurð að henni hafi ekkert orðið sérlega vel við.
„Ég verð að segja að það er frekar þungt í mér hljóðið vegna þessa. Við höfum nú þegar óskað eftir fundi með forstjóra og framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair. Sá fundur verður núna á fimmtudaginn.
Við þurfum að vinna saman að því að finna lausnir en það er ekki inní myndinni að hingað sé ekkert áætlanaflug. Minni á að flugsamgöngur á norðanverða Vestfirði eru einu almenningssamgöngurnar við svæðið.
Auðvitað verðum við líka að líta á þetta sem tækifæri til að gera betur, eins og einhver sagði í mótbyr felast tækifæri. Þrátt fyrir allt þá höfum við eitt og hálft ár til að finna lausnir sem þýðir að við verðum að vinna hratt og það gerum við saman, bæjar- og sveitarstjórar á norðanverðum Vestfjörðum sem og forsvarsfólk Vestfjarðastofu, auk þingmanna kjördæmisins.“