Hverfisráð Þingeyrar: innsiglingarviti virkar ekki

Frá framkvæmdum Ísafjarðarbæjar á Þingeyri á síðasta sumri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hverfisráð Þingeyrar hittist fyrr í mánuðinum og fór yfir ýmis mál sem varða íbúana. Þar eru nefnd allmörg mál sem ráðið bendir á að betur megi fara og kallar á Ísafjarðarbæ að bregðast við.

Eitt er að ekkert ljós er á innsiglingarvitanum á Þingeyri.

Í fundargerð stendur: „Innsiglingarvitinn virkar ekki og hefur ekki virkað frá því framkvæmdir hófust við hreinsivirki/dælustöð s.l. haust. Trúlega hefur rafmagnsstrengur verið rofinn að vitanum en á honum hefur ekki logað eftir að framkvæmdir hófust þarna niður á Oddanum, og er það mjög bagalegt þar sem þetta er innsiglingar viti við Þingeyri. Haft hefur verið samband nokkrum sinnum yfir á Ísafjörð en ekkert bólar enn á ljósi.“

Flýtur yfir hafnarkantinn

Annað er að á stórstreymi flýtur sjórinn yfir veginn út á bryggjuna þar sem bátar Arctic Fish og Egill IS 77 liggja venjulega við.

Íbúaráðið bókaði: „Algjörlega óásættanlegt að fá ekki fjármagn til að laga svona hluti, ekki síst þar sem við búum í firði sem gefur miljarða af sér og við fáum lítið sem ekkert af þeim peningum í hlutfalli við það, í innviði samfélagsins.“

Grenndargámar of dýrir

Rætt var um grenndargáma / grenndarstöð. Íbúaráðið segir að kostnaðurinn við grenndarstöðina sé alltof hár á hvert heimili hér í bæ og spyr: „Væri ekki hægt að nota bílinn sem kemur hér 2x – 3x í viku til að tæma grenndargámana ? Þessi rusla mál þarf virkilega að endurskoða… í Vesturbyggð fer allt í sama gáminn.“

Gangstéttir á slæmu ástandi

Um úttekt á ástandi gangstétta segir íbúaráðið: „Okkur finnst þetta ansi undarleg úttekt á gangstéttum hér í bæ. Gangstéttir sem sagðar eru í lagi eru í mjög slæmu ástandi. Gott væri að fá einhvern frá Ísafjarðarbæ til að koma og fara yfir ástand gangstéttana með t.d. Karli Bjarnasyni stjórnamanni í Hverfisráðinu en hann þekkir ástand gangstéttanna hér mjög vel.“

DEILA