Þegar staldrað er við á tímamótum eins og 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða er áhugavert að líta yfir farinn veg og rifja ýmislegt upp.
Þó svo að efnahagslegur uppgangur hafi almennt ríkt á Íslandi á tímabilinu fyrir 20 til 30 árum síðan, gætti hans ekki mikils á Vestfjörðum. Einhæft atvinnulíf, breytingar í atvinnulífi og þá sérstaklega samdráttur í fisk- og rækjuveiðum hafði mikil áhrif þar á. Stöðug fólksfækkun yfir margra ára tímabil hafði neikvæð áhrif á efnahag og ímynd Vestfjarða.
Fyrir tveimur til þremur áratugum síðan velti maður fyrir sér hvernig hægt yrði að snúa þessari neikvæðu þróun við? Í mínum huga þurfti sú vinna að byggjast á þekkingu. Aukin verðmætasköpun úr sjávarafla yrði byggð upp með meiri þekkingu og auknu þekkingarstigi svæðisins. Sama ætti við um nýtingu ýmissa náttúruauðlinda svæðisins, hvort sem um væri að ræða innan fiskeldis, ferðaþjónustu eða annarrar nýsköpunar eins og hátæknivinnslu afurða úr sjávarfangi sem Kerecis er besta dæmið um.
Til viðbótar við hið hefðbundna iðn- og menntaskólanám þyrfti aukna þekkingu á háskólastigi sem gæti orðið hornsteinn að bættri þekkingaruppbyggingu sem svæðið þurfti nauðsynlega með til að neikvæðri þróun yrði snúið við.
Háskólasetur Vestfjarða var stofnað 12. mars 2005 með viðhöfn á Ísafirði. Það voru um 42 stofnfélagar sem undirrituðu stofnskrána en fomleg starfsemi hófst í janúar 2006. Ljóst var að markmið flestra sem að stofnuninni stóðu var að með starfseminni yrði lagður grunnur að háskólastafsemi á Ísafirði. Til að tryggja nauðsynlega breidd í nemendahópinn á sama tíma og lagður yrði grunnur að „akademísku“ umhverfi fyrir háskólanema var ákveðið að bjóða strax upp á góða aðstöðu fyrir nemendur í fjarnámi sem seinna var yfirtekið af Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Eftir aðeins rúmlega árs starfsemi höfðu um 150 nemendur við nánast alla íslensku háskólana sótt nám í gegnum Háskólasetrið.
Þeir tveir megin þættir sem einkenna starfsemi háskólastofnana eru annars vegar kennsla og hins vegar rannsóknastarfsemi. Á sama tíma og unnið var að uppbyggingu rannsóknastarfsemi á Ísafirði með skírskotun til atvinnulífs og náttúru svæðisins var einnig unnið að undirbúningi staðbundinnar kennslu á háskólastigi í Háskólasetri Vestfjarða í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla.
Til þess að háskólastarfsemi hér á svæðinu næði að vaxa og dafna var mikilvægt að stofnun og þróun Háskólaseturs yrði í sátt og samlyndi við íbúa svæðisins því þannig myndu nást sem mest margfeldisáhrif út í atvinnulífið og samfélagið á Vestfjörðum. Það myndi jafnframt styrkja háskólaumhverfið að tengjast náttúru og kjarnastarfsemi á svæðinu sem er sérstök á margan hátt.
Það er ánægjulegt í dag að líta um öxl og sjá hversu vel hefur til tekist og sú sýn og markmið sem hér að framan er lýst hefur gengið eftir. Öflugt meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun og Byggðafræðum eru með skýra skírskotun til svæðisins og eru báðar námsleiðirnar alþjóðlegar og þverfræðilegar sem gerir það að verkum að þær laða að nemendur hingað til Vestfjaða víða úr heiminum. Framan af voru það fyrst og fremst rannsóknir meistaranema sem stóðu fyrir rannsóknahluta háskólastarfsins en síðar jókst rannsóknahlutinn þegar gert var ráð fyrir að kennarar setursins sinntu þeim hluta jafnframt öðrum störfum.
Ljóst er í mínum huga að upphafleg markmið með stofnun háskólasetursins hafi að stórum hluta gengið eftir. Fjölmörg rannsóknaverkefni meistaranema hafa nýst víða í atvinnulífi á Vestfjörðum, meðal annars beint í uppbyggingu fiskeldis, ferðaþjónustu og víðar. Það er staðreynd að með styrkara atvinnulífi styrkjast forsendur byggðar. Ein mælistikan á þróun byggðar er þróun íbúatölu en eftir áratuga fækkun má nú sjá skýra fjölgun íbúa. Önnur mælistika getur verið þróun íbúðaverðs en þar má jafnframt sjá jákvæða þróun með hækkandi fasteignaverði. Erlendir nemar setursins taka margir hverjir virkan þátt í samfélaginu, gera það fjölbreyttara og sterkara fyrir vikið bæði fyrirtækjum og fólki til góða. Þó ekki sé hægt að benda á einn ákveðinn þátt sem snéri framangreindri neikvæði þróun við er í mínum huga ljóst að starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.
Því ber að þakka þeim góða hópi starfsmanna Háskólaseturs Vestfjarða undir styrkri forystu Dr. Peters Weiss fyrir þá faglegu og góðu vinnu sem þau hafa lagt fram síðastliðin 20 ár, ekki bara samfélaginu okkar hér á Vestfjörðum til góða heldur einnig öllu Íslandi.
Til hamingju öll með tímamótin!
Kristján G. Jóakimsson