Lokagrein númer þrjú af þremur.
Árið 2025 markar þau tímamót að allt í einu eru liðin heil tuttugu ár frá stofnun Háskólasetursins og boðað hefur verið til ársfundar 14. mars nk. þar sem þess verður minnst.
Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að skapa aðstæður fyrir fjarnámsnema í verkefnavinnu, kennslu eða fundarhöldum og gera þeim um leið kleift að vera hluti af háskólasamfélaginu. Slíkt dregur úr einangrun fjarnámsnema og gerir námið aðgengilegra.
Boðið er upp á eins fjölbreytt úrval námskeiða og mögulegt er. Sumarnámskeiðin eru vel þekkt og heimamenn þekkja beiðnina frá Háskólasetri um að tala íslensku við nemana okkar.
Þá er mastersnámið sem staðnám í boði og er kennt á ensku eins og nefnt var í grein nr. 2. Þegar námið var ákveðið var horft til sérstöðu svæðisins og hvað hentaði best útfrá umhverfinu til kennslu. Haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management) veitir MRM gráðu (Master of Resource Management) og útskrifar fólk sem hefur þá öðlast þekkingu í náttúru- og félagsvísindum við stjórnunarfræði innan haf- og strandkerfa.
Sjávarbyggðafræðin (Coastal Communities and Regional Development) gefur MA (Master of Arts) gráðu og útskrifar fólk sem hefur þekkingu í félagsvísindum, hagfræði og skipulagsmálum.
Auðvitað henta þessar námsleiðir hvort sem er Íslendingum eða útlendingum. Sem fyrr segir þá þarf staðnám sem kennt er á Ísafirði að hafa víða skírskotun og fá fólk til að koma á staðinn til að stunda námið. Fjöldi heimamanna nægir ekki til að halda uppi slíku námi.
Það er gaman að verða vitni að því hversu oft útskrifaðir nemar vitna til þess að þau hafi stundað nám við Háskólasetur Vestfjarða og hversu gagnlegt það hafi verið fyrir þau og í hversu stórkostlegu umhverfi þau hafi stundað sitt nám. Og útskriftarstaðurinn, Hrafnseyri við Arnarfjörð skilur eftir sérstaka þjóðlega tilfinningu og tengingu sem aldrei hverfur.
Greinarhöfundur var valinn til formennsku í stjórn Stúdentagarða Háskólasetursins sem jafnframt var byggingarnefnd þeirra 40 íbúða sem risu við Fjarðarstrætið á Ísafirði. Greining á leigumarkaðnum hafði sýnt fram á að vegna fjölgunar starfa á svæðinu og fjölgunar þyrfti stúdentaíbúðir.
Það fór aðeins um okkur sem völdumst í verkefnið þegar Peter Weiss sagði okkur að við hefðum ár til að koma með þessar 40 íbúðir klárar til útleigu fyrir nema. Þetta hafðist með góðu fólki og röskum verktökum. Tilvist þessara íbúða styrkir Háskólasetrið og býður upp á enn betri aðstöðu fyrir námsmenn til lengri og skemmri tíma. Og segir að Háskólasetrið er komið á fullorðinsstig.
Að lokum langar mig til að þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg. Frábær forstöðumaður og starfsfólk þar sem metnaðurinn skín af öllum. Stjórnarfólk sem svo sannarlega hefur sýnt metnað og er mjög hugleikið um að samfélagið þróist áfram og Háskólasetrið leggi sitt ríkulega framlag til þess.
Mig langar að nota sömu lokaorð í þessa grein og ég notaði í opnunarræðu mína þegar við héldum formlega opnunarhátíð Háskólasetursins fyrir 20 árum.
,,Um leið og menntamálaráðherra og aðrir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem hlýða á mál mitt eru hvattir til að leggja sérstaka áherslu á að vinna með okkur að uppbyggingu þekkingariðnarins og sköpun nýrra starfa vil ég þakka fyrir gott samstarf og mikilvægan áfanga sem náðst hefur með stofnun Háskólaseturs Vestfjarða og fjármögnun á rekstri þess. Nú er hátíðarstund – að nokkrum árum liðnum munum við líta til baka og segja; þetta var gæfuspor.”
Halldór Halldórsson
formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.