Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Peter Weiss lætur af störfum

Frá aðalfundi Háskólastursins. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn var haldið upp á 20 ára afmæli Háskólasetur Vestfjarða. Fulltrúaráð Háskólasetursins kom saman í Vestrahúsinu og hélt aðalfund. Þá voru veglegar veitingar, kvennakór Ísafjarðar söng og Vestfjarðastofa stóð fyrir málstofu um uppbyggingu þekkingar í fjórðungnum. Þar var velt upp spurningunni hvað væri næst í uppbyggingu þekkingar.

Mikið fjölmenni var samankomið í Háskólasetrinu til að fagna þessum tímamótum.

Kvennakór Ísafjarðar var undir stjórn Rúnu Esradóttur.

Málstofa Vestfjarðastofu um uppbyggingu þekkingar. Gylfi Ólafsson, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða stjórnaði umræðum. Á myndinni má sjá Gauta Geirsson, Háafelli, Dóróteu Hreinsdóttur, M.Í., Guðmund Fertram Sigurjónsson, Kerecis, Margréti Jónsdóttur Bifröst og Ragnheiði I. Þórarinsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Peter Weiss lætur af störfum í haust

Á aðalsfundinum tilkynnti Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins frá upphafi að hann hygðist láta af störfum í haust. Eftir tuttugu ára starf fyndist honum komi tími til að breyta til. Í ávarpi sínu sagði Peter m.a.

„Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.“ og lauk máli sínu með því að segja „Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.“

DEILA