Háskólasetur Vestfjarða (HV) hefur hlotið styrk frá NordForsk fyrir verkefnið „LostToClimate“, sem mun rannsaka óhjákvæmileg tjón, önnur en efnahagsleg, sem samfélög á Norðurslóðum verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Þetta samstarfsverkefni sameinar vísindamenn og samfélög í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Íslandi, Grænlandi, Kanada og Bandaríkjunum, þar á meðal nokkur samfélög frumbyggja, til að skapa nýja þekkingu sem getur stutt við aðlögun í framtíðinni.
Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranámsins í Sjávarbyggðafræði, sótti um og tók við styrknum fyrir hönd HV og verður verkefnastjóri verkefnisins á Íslandi.
Ljóst er að það var mikil samkeppni en af um 200 umsóknum sem bárust NordForsk hlutu aðeins níu verkefni styrk, þar af tvö sem HV tekur þátt í. NordForsk hefur úthlutað samtals meira en 330 milljónum norskra króna til þessara 9 verkefna sem fjárfestingar í Norðurslóðum. „LostToClimate“ verkefnið mun standa yfir í 4 ár og lýkur árið 2029.
Frekari upplýsingar um LostToClimate verkefnið má finna á síðu NordForsk.