Háafell: sækja um 4.500 tonna stækkun á eldi í Djúpinu

Húsfyllir var í Bryggjusalnum í gær á kynningarfundinum.

Háafell stóð fyrir kynningu á nýju umhverfismati fyrir 4.500 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi í gær. Fundurinn var í Edinborgarhúsinu og mætti 70 -80 manns til þess að fylgjast með.

Háafell hefur þegar leyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Djúpinu og sækir um leyfi til þess að auka það um 4.500 tonn. Miðað við gildandi burðarþolsmat og gildandi áhættumat vegna erfðablöndunar myndi viðbótin öll vera til eldis á ófrjóum laxi.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells segir að þetta sé lokaferlið í tveggja ára vinnu við hið nýja umhverfismat þar sem gerð er grein fyrir væntanlegum áhrifum viðbótareldisins á umhverfið. Hann segir að þetta sé reyndar þriðja umhverfismatið sem Háafell gerir í Djúpinu. Sótt er um að auka við eldið á þeim þremur stöðum sem fyrirtækið hefur þegar leyfi fyrir eldi og því er ekki farið fram á nýjar staðsetningar fyrir kvíar.

Næsta skref er að leggja fram skýrsluna um umhverfismat til Skipulagsstofnunar, sem hefur ákveðinn tíma til þess að skila sínu áliti á fyrirhugaðri stækkun. Gauti telur að það gæti legið fyrir í sumar eða haust.

Að því áliti fengnu er óvíst um næsta skref. Það er stjórnvalda að taka ákvörðun um að hrinda í framkvæmd ákvæðum gildandi laga sem mæla fyrir um að bjóða skuli út leyfi á nýjum svæðum. Það hefur ekki enn verið gert þar sem ný leyfi síðustu ár hafa verið umsóknir sem lagðar voru inn fyrir gildistöku laganna eða breytingar á þegar útgefnum leyfum.

Gauti kvaðst ekki kvíða neinu í þeim efnum heldur væri fyrirtækið að gera sig tilbúið til þess að auka starfsemi sína í Ísafjarðardjúpi hvort heldur það væri að taka þátt í útboði um heimildir eða auka við þegar útgefin leyfi.

Einar Valur Kristjánsson, framkvædastjóri HG í ræðustól á fundinum.

Myndir: Björn Davíðsson.

DEILA