Gullkistan Vestfirði

Mánudaginn 17. mars var haldin skapandi vinnustofa á Vestfjarðastofu til að undirbúa sýninguna Gullkistan Vestfirðir.

Vinnustofan var opin öllum sem eiga aðild að Sóknarhópi Vestfjarða og mættu um 40 manns.

Gullkistan Vestfirðir er Vestfjarðasýning sem verður haldin 6. september 2025 í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Á sýningunni gefst vestfirskum fyrirtækjum og annarri starfsemi á svæðinu tækifæri til að kynna sig fyrir Vestfirðingum og gestum.

Vinnustofan hófst á sameiginlegum hádegisverði þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og María Rut Kristinsdóttir, þingkona Norðvesturkjördæmis heilsuðu upp á gesti.

Síðan leiddi Bragi Valdimar Skúlason vinnu þar sem þátttakendur komu fram með hugmyndir um hvernig þeir vildu helst sjá sýninguna og viðburði henni tengda.

Farið ver yfir markmið, hver ætti að vera kjarni sýningarinnar og rætt hvaða sögu við viljum segja. Niðurstaðan var í stuttu máli að kynna nýsköpun, mannauð, þekkingu, menningu og okkar samheldna samfélag.

Á sýningunni verður kynnt hið öfluga atvinnulíf sem þrífst á Vestfjörðum, en ekki síður hlutir eins og tækifæri í menntun og einstök menning. Þá á hún að fanga þann uppgang sem einkennir vestfirskt samfélag um þessar mundir og hvað það er gott að búa á Vestfjörðum. Gullkistunni Vestfirðir er ætlað að sameina Vestfirðinga og kynna það sem er að gerast á Vestfjörðum.

DEILA