Grunnvíkingafélagið í Reykjavík: stefnt að því að leggja félagið niður

Frá Flæðareyri, en þar eru fjórða hvert ár haldnar fjölmennar samkomur Grunnvíkingafélaganna.

Aðalfundur Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík var haldinn í síðustu viku. Samþykkt var að stefna að því að að félagið í Reykjavík verði lagt niður sem fyrst og ný stjórn vinni þá vinnu fram að næstu aðalfundi, sem stefnt er að halda á haustdögum.

Í fundargerð segir að  áttahagafélög víða um land hafa verið að leggjast af og að félagsmenn séu hættir að leggja tíma sinn í slík félög.

Þá var einnig samþykkt að selja hlut félagsins í Höfða orlofshúsi. Húsið þarfnast orðið mikils viðhalds og ásókn í gistingu hefur minnkað síðustu ár. Félagið á helming í húsinu á móti Grunnvíkingafélaginu á Ísafirði og hefur verið farið fram á að það heimili sölu hússins.

Í stjórn Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík voru kosin Páll Halldór Halldórsson, formaður, Hallfríður Ragúelsdóttir, gjaldkeri, Helga Björg Hafþórsdóttir, meðstjórnandi og Vala Smáradóttir, meðstjórnandi / varamaður.

Félagið er skuldlaust og eignir þess er metnar á 11 m.kr. auk 705 þúsund króna í sjóði.

DEILA