Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, kom til hafnar í Hafnarfirði á sunnudag eftir að það lauk sínum fyrsta leiðangri.
Þórunn var hluti af verkefninu Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum. Þrjú önnur skip tóku þátt í verkefninu, togararnir Breki og Þórunn Sveinsdóttir og rannsóknaskipið Árni Friðriksson. Um borð í þessum fjórum skipum unnu 32 rannsóknamenn og um 70 áhafnarmeðlimir. Togað var á 580 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.
Verkefnið er mjög viðfangsmikið og eitt af stærstu verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Gögnum sem safnað er gegna lykilhlutverki í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir flestar íslenskar botnfisktegundir. Gögnin eru einnig mikilvæg fyrir ýmiskonar vistfræðirannsóknir. Í verkefninu er gögnum safnað um fiska sem flokkast ekki sem nytjategundir og eru þau notuð til að skoða breytingar í tegundafjölbreytileika, m.a. með tilliti til breytinga í hitastigi sjávar.

Skoðað hefur verið í maga þorskfiska í fjöldamörg ár og metinn breytileiki í fæðu eftir svæðum og árum. Í leiðangrinum er einnig safnað sýnum vegna ýmissa annara rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn rusls á sjávarbotni.
Auk þess var botndýrum sem fást sem meðafli safnað á nokkrum stöðvum um borð í Þórunni Þórðardóttur til að fylgjast með lífmassa, fjölbreytileika og útbreiðslu botndýra við Ísland.