Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ýtt úr vör vitundarvakningu um félagslega einangrun. Verkefnið ber heitið Tölum saman og með því vill ráðuneytið vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.
Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.
Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt. Í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á island.is/felagsleg-einangrun. Þar má til dæmis finna ráðleggingar við spurningum á borð við:
- Hefurðu nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
- Hefurðu nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
- Treystirðu mikið á samfélagsmiðla til að fylgjast með kunningjum eða heiminum í heild?
- Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
- Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?
Einmanaleiki er huglæg, óvelkomin tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum samskipum. Fólk er í eðli sínu félagsverur og því er nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum við annað fólk. Einmanaleiki er tilfinning sem getur komið og farið.
Félagsleg einangrun er hins vegar lítil eða engin félagsleg tengsl. Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera „út af fyrir sig“ og að einangrast félagslega er ekki það sama.