Fasteignagjöld víða hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu

Byggðastofnun hefur fengið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni um land allt. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2025 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2024. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 48 sveitarfélögum.

Nú er komin út skýrsla um fasteignagjöld viðmiðunareignar árið 2025.


Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 67,1 m.kr. en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 113,3 m.kr. að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akureyri, á Akranesi, í Keflavík og í Hveragerði. Lægsta meðalfasteignamat landshluta er á Vestfjörðum 42,0 m.kr. og á Austurlandi 42,5 m.kr.

Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkaði heildarfasteignamat allra íbúðareigna um 3,2% milli áranna 2024 og 2025. Á höfuðborgarsvæðinu var hækkun fasteignamat íbúðarhúsnæðis 2,1% en 6,6% utan höfuðborgarsvæðis. Mesta hlutfallslega hækkun fasteignamats viðmiðunareignar var á Breiðdalsvík 34,1% en þar næst í Hnífsdal 30,8% og á Fáskrúðsfirði 27,2%.

Meðaltal fasteignagjalda viðmiðunareignar er 509 þ.kr. á landsbyggðinni en 485 þ.kr. á höfuðborgarsvæðinu og er þetta í fyrsta sinn sem fasteignagjöld viðmiðunareignar í greiningunni eru almennt hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir mun lægra fasteignamat.


Þó fasteignagjöld séu ekki beintengd við fasteignamat eru línuleg tengsl milli heildarfasteignamats og heildarfasteignagjalda viðmiðunareignarinnar eins og sjá má á punktaritinu á meðfylgjandi mynd.

Línan sem dregin er í gegnum punktana 103 er aðhvarfslína og matssvæði þar sem fasteignagjöld eru frábugðin því sem ætla mætti út frá fasteignamatinu lenda þá langt fyrir ofan eða neðan línuna.

DEILA