Eyrarkláfur á Ísafirði

Fyrir nokkru sendi Efla verkfræðistofa fyrir hönd okkar sem vinnum að Eyrarkláfi inn skipulagslýsingu til bæjarins. Segja má að kominn sé gangur í þetta spennandi verkefni sem lengi hefur verið í deiglunni og markmiðið að kynna það vel og eiga opið og gott samtal á næstu misserum. 

Lyftistöng fyrir samfélagið

Kláfur upp á Eyrarfjall verður fyrsti kláfur sinnar tegundar á landinu. Hann opnar ekki einungis einstakt útsýni yfir firðina og fjöllin heldur gera áætlanir ráð fyrir veitingastað á toppnum. Þá vinnum við í samstarfi við ýmsa aðila að athugunum og þróun á áhugaverðum útvistar- og afþreyingarmöguleikum á fjallinu í tengslum við kláfinn. 

Kláfurinn mun draga að sér ferðafólk, bæði innlent sem erlent, enda einstakur á svæðinu. Sambærileg verkefni á sambærilegum svæðum t.d. í Noregi hafa gefist einstaklega vel og orðið mikil lyftistöng fyrir sín samfélög.

Ljóst er að verkefnið mun skapa mikið af tímabundnum störfum við uppbyggingu, enda mikil fjárfesting, sem og langtímastörf og þörf fyrir þjónustu. Efnahagsævintýrið á Vestfjörðum er í fullum gangi og kláfurinn mun styðja enn frekar við það.

Lengi í deiglunni

Hugmyndir um kláf upp á Eyrarfjall hafa lengi verið í deiglunni. Einhverjar heimildir eru fyrir því að hugmyndina megi rekja til Hannibals Valdimarssonar. Nýlegri útfærslur eiga Úlfar og Úlfur, oft kenndir við Hamraborg, en fyrir um tuttugu árum tóku þeir snúning á verkefninu. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar, og Eyrarkláfur alltaf verið hugmynd í vinnslu. Hugmyndin hefur alla tíð verið að koma fyrir aðstöðu fyrir ofan Hlíðaveg eins og fram hefur komið bæði í fjölmiðlum undanfarin ár sem og samskiptum við Skipulagsstofnun í tengslum við umhverfismat.

Opið ferli

Skipulags- og undirbúningsferlið fer nú af stað með skipulagslýsingu sem send var inn fyrir nokkru. Ferlið verður faglega unnið í samræmi við lög og reglur og þegar hafa komið þar góðar ábendingar og spurningar sem við munum að sjálfsögðu vinna úr og svara. Í kjölfar skipulagslýsingar, sem er í opnu samráðsferli, munum við vinna með samstarfsaðilum okkar í Eflu að gerð tillagna um breytingar á aðal- og deiliskipulagi, þar sem ítarlegri upplýsingar munu liggja fyrir. 

Á sama tíma er unnið að matsskýrslu um umhverfisáhrif, en í matsáætlun, þar sem fjallað er um hvað muni koma fram í skýrslunni, var send inn til Skipulagsstofnunar til umfjöllunar og opins samráðs fyrr á árinu. Fyrir utan hið lögbundna, opna samráðsferli, þá munum við halda íbúafundi þar sem verkefnið og framgangur þess verður kynntur, sem og spurningum svarað.

Við hlökkum til áframhaldandi samtals og uppbyggingar á Vestfjörðum.

Gissur Skarphéðinsson

DEILA