Framundan er endurnýjun á björgunarskipinu Gísla Jóns en skipið er smíðað árið 1990 í Noregi. Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur nú fyrir endurnýjun björgunarskipa hringinn í kringum landið og er röðin komin að Gísla Jóns.
Á Ísafirði hefur verið rekið björgunarskip frá árinu 1988 þegar björgunarsveitin Skutull og Tindar keyptu Daníel Sigmundsson, nýjan björgunarbát frá Noregi. Var tilkoma Daníels mikil breyting í björgunargetu á svæðinu og nú, tæplega 40 árum seinna stendur til að ráðast í nýsmíði að nýju en undanfarnir björgunarbátar hafa verið keyptir notaðir frá Þýskalandi, Bretlandi og Noregi.
Björgunarskipin hafa oft á tíðum skipt sköpum þegar kemur að því að tryggja öryggi sjómanna við strendur landsins. Á hverju ári fara björgunarskip félagsins í 130-150 útköll, allt frá aðstoð við vélarvana báta, strönduð skip eða til að sækja slasaða sjófarendur svo eitthvað sé nefnt. Skipið á Ísafirði sinnir einnig flutningi á sjúkum eða slösuðum ferðamönnum og sumaríbúum í Jökulfjörðum og Hornströndum og er jafnvel stjórnstöð í leitum á þessum svæðum. Skipið gegnir einnig mikilvægu öryggishlutverki þar sem erfitt getur verið með samgöngur á landi, eins og hér á norðanverðum Vestfjörðum. Meðalfjöldi útkalla síðustu ár hjá Gísla Jóns hafa verið um 25 útköll á ári
Þetta er stærsta einstaka fjáröflunaverkefnið sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur ráðist í og um leið samfélagslega mikilvægt verkefni. Heildarkostnaðaráætlun við endurnýjunina eru 4,4 milljarðar. Íslenska ríkið leggur til 50% vegna fyrstu 10 skipanna og viðræður standa yfir um aðkomu ríkisins um fjármögnun síðustu þriggja skipanna.
Verkefnið hefur farið vel af stað og nú eru komin til landsins 4 ný skip og von er á tveimur á þessu ári, afhending á nýjum Gísla Jóns er áætluð í lok október. Það sem kemur í hlut heimamana að leggja til allt að 25% af smíðaverði skipanna og því er nú að hefjast söfnun fyrir hlut Björgunarbátasjóðsins sem rekur skipið.
Helstu upplýsingar um nýtt skip:
Lengd: 16.9 metrar
Breidd 4.5 metrar
Vélar: 2x551kw
Hámarksganghraði: 30 mílur
Farsvið: 200 mílur
Sjálfréttandi
Ásamt öllum helstu björgunartækjum
Nánari upplýsingar um söfnunina gefur stjórn Björgunarbátasjóðsins: Gauti Geirsson 8441718, Ragnar Kristinsson 8920660, Eggert Stefánsson 8933895 og Guðmundur Sigurlaugsson 8919888.