Elding: vonbrigði með afstöðu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Smábátar í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Stjórn Eldingar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vonbrigðum með bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er varðar breytingar á reglugerð um strandveiðar og send var inn í samráðsgátt stjórnvalda. 

„Við, sem störfum við strandveiðar og treystum á þær sem lífsviðurværi okkar, hörmum þá afstöðu sem fram kemur í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. mars 2025. Sú stefna sem þar er mörkuð tekur ekki mið af hagsmunum strandveiðisjómanna og grefur frekar undan tilvist strandveiða í núverandi mynd.  Þetta er ekki síst undarleg umsögn þar sem hún fjallar ekki um þau atriði sem Matvælaráðherra sendi til umsagnar, heldur allt aðra þætti.

Í stað þess að fagna auknum strandveiðum leggst bæjarráð gegn þeim, sem þykja verður all sérstakt í ljósi þess að flest bæjarfélög fagna auknum umsvifum í höfnum sínum.  Ennfremur hefur Matvælaráðherra lýst því yfir að fjölgun daga muni ekki skerða hlut annarra, þannig að hér verði um að ræða hreina viðbót við umsvif í höfnum Ísafjarðarbæjar sem gerir umsögn bæjarráðs enn undarlegri.  Til áréttingar sendi Matvælaráðherra þrjú atriði til umsagnar, 1) Umsóknarfrestur til strandveiða, 2) Skilyrði um eignarhald, 3) Skil á aflaupplýsingum.  Í engu var þessum þremur spurningum svarað efnislega af bæjarráði Ísafjarðarbæjar.  Það verður seint talið til vandaðrar stjórnsýslu að geta ekki svarað efnislega því sem að þeim er beint.  Slík vinnubrögð geta stjórnmálamenn ekki leyft sér vilji þeir að mark sé tekið á þeim.“

DEILA