Eiríkur Örn Norðdahl tilnefndur til bókmennatverðlauna Norðurlandaráðs

Verk Ísfirðingsins Eiríks Arnar Norðdahl, Náttúrulögmál, sem út kom 2023 er tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, 2025.

Alls eru 14 verk eftir jafnmarga höfunda frá 9 málsvæðum á Norðurlöndum tilnefnd, þar af tvö frá Íslandi.

Tilkynnt verður um handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 hinn 21. október. Verðlaunagripurinn verður afhentur á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 28. október. Verðlaunin nema 300 þúsundum danskra króna.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Í umsögn dómnefndar um verkið segir :

„Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.“ 

DEILA