Dynjandisheiði: Tetra sambandið var í lagi

Hér má sjá hvernig Tetra dekkun er á Dynjandisheið þessa dagana. Mynd frá Neyðarlínunni.

Á mánudaginn reyndist vera sambandslaust á Dynjandisheiðinni og greindi vegfarandi frá því að hann hefði lent í óhappi við gömlu sýslumörkin og þar hefði ekki verið neitt farsímasamband og náðist ekki samband fyrr en komið var ofan í Dynjandisheiði.

Í lok síðasta árs kom Neyðarlínan upp fjarskiptagámi á Dynjandisheiðinni, á SA verðri öxl Urðarfells, með tetra- og farsímasendum. Um er að ræða tilraunaverkefni og sagði framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar að vonast væri að með þessu tækist að tryggja öruggt fjarskiptasamband.

Haft var samband við Neyðarlínuna af þessu tilefni og segir í svari þeirra að Neyðarlínunni sé ekki kunnugt um annað en að Tetra samband hafi verið í fullri virkni á þeim tíma sem spurt er um. Hvað varðar virkni farsímasenda þá getur Neyðarlínan ekki svarað fyrir þau mál og vísast til rekstraraðila þeirra senda með það enda er rekstur farsímasenda ekki á höndum Neyðarlínunnar.

Vegagerðin vaktar ekki fjarskiptasamband

Einnig var haft samband við Vegagerðina í svari hennar segir að Vegagerðin sé ekki ábyrg fyrir því að tryggja fjarskipti á vegum „og við erum því ekki markvisst að vakta hvenær eitthvað er bilað hjá fjarskiptafélögunum. Við verðum samt sjálf vör við það þegar okkar búnaður sem tengdur er í gegnum fjarskipti virkar ekki og þannig vitum við oft ef eitthvað er úti. Við erum í góðum samskiptum við fjarskiptafélögin. Við erum í reglulegum samskiptum og viðræðum um hvernig best sé að standa að því að tryggja fjarskipti á leiðum og þá ekki síst á fjallvegum og leiðum þar sem langt er í aðstoð fyrir vegfarendur.

Við höfum verið í nokkur ár í samtali við Neyðarlínuna um hvernig best sé að tryggja fjarskipti á Dynjandisheiði en þar höfum við einmitt töluverðar áhyggjur vegna fjarskiptasambandsleysis.

Einnig höfum við verið í samtali við Neyðarlínuna með það fyrir augum að samnýta framkvæmdir við fjarskipti og rafmagn á heiðinni, sem nýst geta öllum aðilum (fjarskiptafélögunum, Neyðarlínunni og Vegagerðinni).“

DEILA