Bolungavík: Ísfell í samstarf um skipulag og þróun hafnasvæðisins

Bolungavíkurhöfn í agúst 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bolungavíkurkaupstaður og Ísfell ehf hafa hafa gert með sér samstarfsyfirlýsingu um samstarf vegna undirbúnings skipulags og þróunar næsta nágrennis hafnarsvæðisins í Bolungarvík.

Í yfirlýsingunni segir að fyrir liggi að möguleiki er til að deiliskipuleggja nýjar lóðir á svokölluðum ‚sandfangara‘ við Grundargarð í Bolungarvíkurhöfn. Svæðið er skilgreint í aðalskipulagi, en er ekki deiliskipulagt.

Markmið viljayfirlýsingarinnar er að klára undirbúning fyrir uppbyggingu starfsemi Ísfells í Bolungarvík.

Undirritaðir aðilar lýsa því yfir að stefnt sé að því að ljúka gerð heildarsamkomulags varðandi framtíðarfyrirkomulag lóða og skipulag hafnarinnar. Samkomulagið lúti m.a. að:

  • Skilgreining á þörfum Ísfells um byggingarlóð og athafnasvæði
  • Skilgreining á aðgengi Ísfells að hafnarkannti, stærð, dýpi og tíðni.
  • Aðgengi að lóðum og athafnasvæði
  • Uppbygging sveitarfélagsins á hafnarmannvirkjum sem styðja við markmið viljayfirlýsingarinnar.
  • Samning um lóðaframkvæmdir og framkvæmdaleyfi.

Stefnt er að því að heildarsamkomulag verði undirritað eigi síðar 1. september nk.

Hvor aðili fyrir sig ber kostnað vegna eigin vinnu og þeirra sérfræðinga sem þeir ráða til verksins.

Ísfell ehf er fyrirtæki staðsett í Hafnarfirði sem er umsvifamikið í þjónustu við fiskeldi, sölu á útgerðarvörum og veiðarfæraþjónustu. Tekjur félagsins á árinu 2023 voru um 4,3 milljarðar króna og varð þá 230 m.kr. hagnaður af starfseminni fyrir tekjuskatt. Eignir félagsins voru í lok ársins um 3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um 45%.

Eigendu eru norskir aðilar.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagði í samtali við Bæjarins besta að mikil eftirspurn væri eftir aðstöðu í Bolungavíkurhöfn og það þyrfti að stækka höfnina og athafnasvæði hennar svo sem með lengri viðlegukanti. Hann sagði að þjónusta við fiskeldið væri grundvöllurinn í áformum Ísfells ehf í Bolungavík. Framundan væri að mati Jóns Páls önnur bylgja uppbyggingar í fiskeldinu með fyrirsjáanlegri aukningu á framleiðslu í Ísafjarðardjúpinu.

DEILA