Blús og píanóhátíð í Vesturbyggð í sumar

Vesturbyggð hefur gert samstarfs­samn­inga við tvær tónlist­ar­há­tíðir, annars vegar við Alþjóð­legu píanó­hátíð Vest­fjarða og hins vegar við blús­há­tíðina Blús milli fjalls og fjöru um tónlistarhátíðir í ágúst á komandi sumri.

Alþjóðlega píanóhátíð Vestfjarða, eða International Westfjords Piano Festival, var stofnuð af píanóleikaranum Andrew J. Yang árið 2022 og býður bæjarbúum upp á klassíska píanótónleika á heimsklassa ár hvert, auk þess sem mikil áhersla er lögð á námskeiðahald og kennslu. Hún verður haldin í fjórða skipti dagana 6.-13. ágúst næstkomandi. Hún hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar árið 2023 en hún er „veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.“ Samstarfssamningurinn felur í sér árlegan styrk fyrir framkvæmd píanóhátíðarinnar og ákvæði um framboð á kennslustundum fyrir íbúa með að minnsta kosti grunnþekkingu í píanóleik.

Tónlistarhátíðin Blús milli fjalls og fjöru hefur fyrir löngu fest sig í sessi í menningarlandslagi Vestfjarða. Þar koma fram fremstu listamenn landsins á sviði blústónlistar en einnig á öðrum sviðum, svo sem rokktónlistar. Sigurjón Páll Hauksson hefur staðið að hátíðinni með glæsibrag árum saman og hún hefur verið vel sótt bæði af heimafólki jafnt sem öðrum gestum. Samstarfssamningurinn tekur til niðurfellingar á leigu félagsheimilis Patreksfjarðar yfir hátíðarhelgina og tryggir forgang hátíðarinnar að félagsheimilinu þá helgi ár hvert. Hátíðin verður haldin í 14. skipti síðustu helgina í ágúst næstkomandi, nánari upplýsingar um dagskrá og miðasölu verða birtar þegar nær dregur.

DEILA