Fram kemur í erindi björgunarsveitarinnar Dýri í Dýrafirði til Ísafjarðarbæjar að núverandi jeppi sveitarinnar er orðinn 25 ára og ákveðið hefur verið að kaupa nýjan björgunarbíl. Ætlunin er að kaupa Ford Expedition jeppa sem verður breyttur fyrir 44 tommu dekk og mun verða vel útbúinn fyrir björgunaraðgerðir. Ef þess þarf mun einnig vera hægt að flytja sjúkling í börum í bílnum, sem eykur verulega viðbragðshæfni sveitarinnar í neyðartilfellum.
Vegna bættra samgöngumannvirkja yfir Dynjandisheiði og aukins fjölda ferðamanna hefur umfang og fjöldi verkefna aukist, og þá er öflugur og áreiðanlegur björgunarbíll algjör nauðsyn segir í erindinu.
Frá 1. janúar 2023 til dagsins í dag hefur núverandi björgunarbíll verið notaður í 28 aðgerðir og er helsta verkfæri sveitarinnar í björgunarstarfi.
Sveitin fagnar 50 ára afmæli í ár og er hluti af öryggisneti Vestfjarða. Verkefni sveitarinnar eru lang flest þeim fjallvegum og ferðamannastöðum sem eru í okkar nágrenni, Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði,
Dynjandisvogur og Svalvogavegur.
Björgunarsveitin Dýri hefur það markmið að safna 31.000.000 kr. til kaupa á nýjum björgunarbíl. Hingað til hefur tekist að safna 15.000.000 kr. og vantar því 16.000.000 til að láta verkefnið verða að veruleika.
Stefnt er að því að ljúka söfnun og pöntun á bílnum á árinu 2025 og hann verði klár í útkall undir lok árs 2026.
Björgunarsveitin sækir um styrk til Ísafjarðarbæjar til kaupa á nýjum bíl og er farið fram á að Ísafjarðarbær sæki um styrk í Fiskeldissjóð til kaupanna.
Bæjarráð ákvað að sækja um styrk fyrir fimm tilgreindum verkefnum í Fiskeldissjóð í ár og eru kaup björgunarsveitarinnar Dýra ekki þeirra á meðal.